Argentínumenn eru fyrstu andstæðingar Íslendinga í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í Wroclaw í Póllandi um helgina og hefst í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem þjóðirnar mætast í alþjóðlegri keppni og flautað verður til leiks klukkan 16.00.
Argentínumenn hafa samt sem áður verið fastagestir á heimsmeistaramótum um árabil og hafa komist á öll mót frá árinu 1997, enda hafa þeir frá þeim tíma ávallt hafnað í fyrsta eða öðru sæti í meistarakeppni Suður-Ameríku. Argentína vann þá keppni árin 2000, 2002 og 2004, eða í þrjú skipti í röð, en tapaði úrslitaleikjum gegn Kúbu 1996 og 1998 og gegn Brasilíu 2006.
Besti árangur Argentínumanna í úrslitakeppni HM er 15. sætið í Frakklandi árið 2001 en þá komust þeir áfram í milliriðil með því að sigra Brasilíu og Kúveit og gera jafntefli við Alsír.
Þeir hafa síðan hafnað í 17., 18. og 16. sæti af 24 þjóðum í keppninni en athyglisverðustu úrslitin voru árið 2003 þegar argentínska liðið skellti verðandi heimsmeisturum Króatíu í fyrsta leik, 30:29. Næst gerðu þeir jafntefli við Rússa, 26:26, en misstu síðan algjörlega móðinn og klúðruðu gullnu tækifæri til að komast í milliriðil með því að tapa fyrir Sádi-Arabíu í lokaleik riðlakeppninnar, 30:31.
Þekktasti leikmaður Argentínu er örvhenta stórskyttan Eric Gull sem jafnan hefur verið í hópi markahæstu leikmanna á stórmótum en var hinsvegar ekki með liðinu á HM í Þýskalandi 2007. Gull, sem er 2,10 m á hæð, spilar með Barcelona og það segir flest sem segja þarf um styrkleika hans.
Fimm argentínsku landsliðsmannanna í viðbót spila á Spáni. Agustsín Vidal með Algeciras, Sebastián Simonet og Federico Vieyra með Torrevieja, Andrés Kogovsek með Antequera og Gonzalo Carou með Arrate.
Þá leika tveir í þýsku 2. deildinni, markvörðurinn Matías Schulz með Dessau og Maximiliano Ferro með Korschenbroich. Einn til viðbótar spilar með evrópsku liði, Alejo Carrara með Bologna á Ítalíu.
Gull er markahæsti leikmaður landsliðsins með 280 mörk í 78 landsleikjum. Damián Migueles, sem líka er örvhent skytta og spilar með Polvorines í heimalandi sínu, hefur gert 159 mörk í 39 landsleikjum sem er athyglisvert skor og línumaðurinn Gonzalo Carou er með 145 mörk í 62 landsleikjum. Áðurnefndur Carrara er með 128 mörk í 67 leikjum en hann er örvhentur hornamaður.
Athyglisverðustu úrslit hjá Argentínumönnum í ár er stórsigur þeirra á liði Svartfjallalands, 25:16, á móti á Spáni í janúar en Svartfellingar voru í úrslitakeppni EM í Noregi síðar í þeim mánuði. Argentínumenn töpuðu fyrir Spáni, 25:31, og fyrir Frökkum, 15:29, í sama móti.