Eftir ósigurinn gegn Pólverjum í Wroclaw í kvöld, 34:28, er ljóst að íslenska karlalandsliðið í handknattleik þarf að sigra Svía í lokaumferð undankeppninnar á morgun til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum. Þetta verður hreinn úrslitaleikur þar sem Svíum dugar jafntefli.
Slæm byrjun varð íslenska liðinu að falli í kvöld. Það var vitað mál að Pólverjar myndu eins og alltaf byrja leikinn með látum og reyna að ná góðu forskoti í byrjun. Það gerðu þeir, komust í 4:0 og 5:1, og sú forgjöf reyndist þeim dýrmæt þegar upp var staðið því þrátt fyrir góðar tilraunir náði íslenska liðið aldrei að jafna metin og hlutskipti þess frá fyrstu mínútu var að reyna að saxa á forskot Pólverja.
Það tókst samt bærilega, staðan var 8:7 eftir 19 mínútur, 9:8 skömmu síðar, 15:14 í upphafi síðari hálfleiks og 17:16 þegar fimm mínútur voru búnar af honum. Á þeim tímapunkti hafði aðferðafræði íslenska liðsins í raun gengið upp. Það átti alltaf að standa af sér storminn í byrjun með þolinmæði og skynsemi og vinna sig svo inní leikinn.
En eftir það voru það rangar ákvarðanir og mistök á lykilaugnablikum á síðustu 25 mínútum leiksins sem skildu á milli liðanna. Slawomir Szmal varði sitt þriðja vítakast á 8. mínútu síðari hálfleiks, og þá var munurinn nákvæmlega þrjú mörk.
Þegar 8 mínútur voru eftir stóð 26:23 og enn allt hægt. Þá gerði íslenska liðið sig sekt um slæm sóknarmistök í tveimur sóknum í röð, Pólverjar náðu tveimur fyrstu hraðaupphlaupum sínum í leiknum og staðan skyndilega 28:23. Á þeim tímapunkti fóru pólsku leikmennirnir að fagna - þá vissu þeir að Ólympíusætið var að falla þeim í skaut.
Reyndar kom íslenska liðið sér enn einu sinni inní leikinn, þegar Ólafur Stefánsson skoraði úr vítakasti, 31:28, enn rúmar þrjár mínútur eftir og Pólverjar manni færri næstu tvær mínúturnar. Þá fór hinsvegar allt í vaskinn, í annað skiptið í leiknum skoruðu Pólverjar tvö mörk gegn engu þegar þeir voru manni færri, Karol Bielecki bæði með þrumuskotum utan af velli, og þar með var sigurinn þeirra.
Það sem munaði mestu var að Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson komust aldrei almennilega inní leikinn. Allir andstæðingar Íslands vita hve mikilvægur Ólafur er liðinu og Pólverjar lögðu gríðarlega áherslu á að halda honum niðri, bæði að hleypa honum ekki í skot og loka á sendingarnar hans. Enda náði Ólafur aðeins að skora úr 5 skotum af 15 í leiknum og aldrei þessu vant átti hann enga stoðsendingu sem gaf mark. Bara þetta atriði var Pólverjum óhemju dýrmætt í leiknum.
Guðjón Valur náði ekki að skora mark fyrr en 12 mínútur voru eftir af leiknum og hafði þá sárafá færi fengið til þess. Hraðaupphlaupin náðust ekki lengst af, enda vissu Pólverjar vel af því hættulega vopni Íslands og voru geysilega skynsamir og fljótir að loka á þau. Guðjón fékk heldur lítið að gera í horninu fyrr en á lokakaflanum þegar pólska vörnin fór að opnast og þá gerði hann líka fjögur mörk í röð.
Jákvæðustu punktarnir voru frammistaða Arnórs Atlasonar, Snorra Steins Guðjónssonar og Hreiðars Guðmundssonar markvarðar, sem og Vignis Svavarssonar í varnarleiknum.
Arnór hefur oft átt erfitt uppdráttar í stóru leikjunum en sýndi í kvöld að hann er tilbúinn í þá. Hann var maður en ekki mús í þessum leik, eins og hann talaði um sjálfur fyrir leikinn.
Snorri Steinn er hinn raunverulegi leiðtogi liðsins og þó að hans nýting væri aðeins 50 prósent, 7 mörk úr 14 skotum, þá var það oftar en ekki hans hlutverk að reyna skot úr erfiðum stöðum eftir að búið var að loka Ólaf af og fátt annað í myndinni en að láta vaða. Snorri er mikill stjórnandi og vex með hverju verkefni.
Hreiðar varði 18 skot í leiknum, 16 þeirra úr dauðafærum á línu, horni eða úr hraðaupphlaupi. Mikil synd að slík markvarsla skuli ekki nýtast betur og segir í raun hversu slæmar lokatölur leiksins hefðu í raun getað orðið ef hans framlag hefði ekki komið til.
Vignir er stöðugt að bæta sig sem varnarmaður, er orðinn klókari í brotunum en áður og hann varði nokkur skot í vörninni frá pólsku stórskyttunum. Þá krækti hann í tvö vítaköst.
Karol Bielecki, rauðhærði risinn, var hvíldur fyrstu 15 mínútur leiksins en reyndist síðan íslenska liðinu óhemju erfiður. Hann skoraði sjö mörk með þrumufleygum utan af velli. Samtals gerði pólska stórskotaliðið 16 mörk með langskotum og fullyrðingin um að þetta sé besta sóknarlið heims stenst alveg miðað við þennan leik. Sex leikmanna liðsins skoruðu með langskotum í leiknum.
En einfalda niðurstaða leiksins er sú að Pólverjarnir eru númeri stærri en Íslendingar. Þeir eru með betra lið þegar horft er á alla þætti og verðskulda fyllilega að vera komnir í þessa stöðu. Flott og kraftmikið lið sem spilar handbolta sem áhorfendur kunna að meta, hverrar þjóðar sem þeir eru.
Pólverjar eru komnir á Ólympíuleikana, nema svo ótrúlega fari að þeir tapi fyrir Argentínu og Ísland vinni jafnframt Svíþjóð. Því fyrrnefnda getum við gleymt. Íslenska liðsins bíður því hreinn úrslitaleikur gegn Svíum á morgun klukkan 16.15 að íslenskum tíma. Þá er það sigur og ekkert annað sem gildir.
Tölulegar staðreyndir úr leik Íslands og Póllands:
Mörk Íslands: Snorri Steinn Guðjónsson 7/3, Arnór Atlason 6, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Ólafur Stefánsson 5/1, Róbert Gunnarsson 3, Alexander Petersson 2.
Varin skot: Hreiðar Guðmundsson 18 (þar af 8 aftur til mótherja).
Mörk Póllands: Karol Bielecki 7, Grzegorz Tkaczyk 5, Michal Jurecki 4, Tomasz Tluczynski 4/3, Marcin Lijewski 4, Bartosz Jurecki 3, Mariusz Jurasik 3, Krzysztof Lijewski 2, Artur Siódmiak 1, Rafal Glinski 1.
Varin skot: Slawomir Szmal 19/3 (þar af 3 aftur til mótherja).
Utan vallar: Íslands 6 mínútur, Pólland 12 mínútur.
Dómarar: Breto og Huelin frá Spáni, góðir.´
Áhorfendur: 6.500, uppselt og gífurleg stemmning í mögnuðu 95 ára gömlu mannvirki, Hala Stulecia.