Sigur í kvöld kæmi Íslandi beint á ÓL

Sigfús Sigurðsson hitar upp fyrir leikinn gegn Argentínu. Hann þarf …
Sigfús Sigurðsson hitar upp fyrir leikinn gegn Argentínu. Hann þarf að vera í sínu besta formi í vörninni í kvöld. Jonas Ekströmer / Scanpix

Í kvöld gæti íslenska karlalandsliðið í handknattleik náð því stóra markmiði sínu að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Peking. En til þess þarf það einhvern besta leik sinn á síðari árum gegn Pólverjum, á þeirra eigin heimavelli í gífurlegum hávaða og stemmningu í Wroclaw.

Þegar Pólverjar léku við Svía í gærkvöld og gerðu jafntefli, 22:22, heyrðist vart mannsins mál í hinni 95 ára gömlu byggingu, Hala Stulecia, mögnuðu mannvirki með gífurlega lofthæð og hvolfþak sem endurkastar röddum 6.500 áhorfenda margfalt.  Sænski þjálfarinn Ingemar Linnéll sagðist ekki hafa heyrt í sjálfum sér á meðan leikurinn stóð yfir og Guðmundur Þ. Guðmundsson má samkvæmt því búast við því að þurfa að nota fingramálið frekar en raddböndin til að koma skilaboðum sínum á framfæri í leiknum.

Pólverjar eru ekki árennilegir með allar sínar öflugu skyttur sem hafa skotið liði þeirra í fremstu röð í heiminum á ný eftir löng og mögur ár í pólskum handbolta. Að sjá til þeirra í dag fær hugann til að reika aftur til ársins 1987 þegar sá sem þetta skrifar var í gamla Austur-Þýskalandi og sá stórbrotna skyttusýningu í handbolta þegar Ísland og Pólland gerðu jafntefli í Wismar. Þá voru Jerzy Klempel og Bogdan Wenta, núverandi þjálfari Pólverja, óstöðvandi öðru megin og hinum megin voru Alfreð Gíslason, Kristján Arason og Sigurður Sveinsson allir í sínum besta ham. Sá leikur gleymist seint.

Þá áttu Pólverjar Klempel og Wenta, en í dag eru þeir með enn breiðari stórskotasveit sem án efa reynir að skjóta íslenska liðið í kaf, með dyggum stuðningi áhorfenda, á fyrstu 10-15 mínútunum. Það er alveg ljóst að varnarleikur Íslands verður að vera uppá sitt allra besta strax frá byrjun. Svíar unnu hreint ótrúlegt afrek með frábærum varnarleik og markvörslu, að halda pólska liðinu í 22 mörkum, sem fáum hefur lánast á síðustu árum. Vanalega skora þeir 30-35 mörk í leik.

Í liði Póllands eru Karol Bielecki, Grzegorz Tkaczyk, Marcin Lijewski og Krzysztof Lijewski allir gífurlega öflugir fyrir utan og Mariusz Jurasik er geysiöflugur hornamaður sem líka getur skotið fyrir utan. Línumaður þeirra hefur ekki alltaf verið áberandi en gegn Svíum í gærkvöld lét Bartosz Jurecki heldur betur til sín taka og skoraði 9 mörk. Gríðarsterk vörn Svía lenti í miklu basli með Jurecki sem var klókur í að búa sér til svæði á línunni og nýtti færin vel.

Lið Póllands í dag hefur þegar náð besta árangri þjóðarinnar í handboltanum frá upphafi, með því að komast í úrslitaleikinn á HM í Þýskalandi í fyrra – úrslitaleikinn sem Ísland átti ótrúlega gott færi á að eiga aðild að. Áður höfðu Pólverjar best náð bronsverðlaunum á HM árið 1982 og bronsi á Ólympíuleikunum í Montreal árið 1976. Þeir komust ekki í lokakeppni HM í þrettán ár, frá 1990 til 2003 en hafa nú með réttu endurheimt sæti sitt í hópi bestu handboltaþjóða heims.

Það er því ekki lítið takmark sem íslensku leikmennirnir hafa sett sér fyrir leikinn í kvöld. En nú er tækifærið fyrir hendi, sennilega betra en að treysta á að ná að leggja Svía að velli á morgun í leik sem verður hreinn úrslitaleikur ef þessi tapast. Svíar mæta Argentínu í fyrri leik dagsins í dag og ættu að öllu eðlilegu að ná að hvíla lykilmenn sína þar fyrir átökin gegn Íslandi á morgun.

Íslenska liðið kemur að því leyti með forgjöf í leikinn í kvöld að það þurfti ekki að beita öllum sínum kröftum til að sigra Argentínu örugglega í gær, 36:27. Pólverjar lentu hinsvegar í rafmögnuðum spennuleik gegn Svíum sem endaði 22:22 og þurftu þar að gefa allt sitt í mikinn slag sem gæti haft áhrif á þá í leiknum í kvöld. En eins og Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari sagði í viðtali hér á mbl.is verða allir þættir í leik íslenska liðsins að ganga upp ef það á að ná að knýja fram sigur á Pólverjum.

Leikur Íslands og Póllands hefst klukkan 18.15 og fylgst verður með honum í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Umfjöllun um leikinn og viðtöl verða einnig hér á vefnum strax í kvöld. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert