Sóknarleikurinn brást í kvöld

Guðmundur Þ. Guðmundsson vonsvikinn við varamannabekkinn í leikslok.
Guðmundur Þ. Guðmundsson vonsvikinn við varamannabekkinn í leikslok. Jonas Ekströmer / Scanpix

„Það er eiginlega ekki hægt að setja útá markvörsluna og varnarleikinn og niðurstaðan er því fyrst og fremst sú að það var sóknarleikurinn sem brást hjá okkur í kvöld," sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik við mbl.is eftir ósigurinn í Wroclaw, 34:28, gegn Pólverjum í undankeppni Ólympíuleikanna.

Sex marka tap gegn Pólverjum

„Ég er mjög svekktur yfir þessum úrslitum því við vorum inni í leiknum mjög lengi en fórum afar illa með dauðafærin. Það var sérstaklega of mikið að nýta ekki þrjú vítaköst, í raun eru það þau sem skilja á milli þegar upp er staðið. Lokatölurnar, sex marka munur, segja ekkert,  Pólverjarnir gerðu þrjú síðustu mörkin í lokin þegar við fórum framá völlinn til að pressa þá, en við vorum nálægt þeim allan tímann og vantaði herslumuninn.

Við fórum líka illa að ráði okkar þegar við vorum manni fleiri, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Þar kom eitt dýrkeypt skipti þar sem við vorum undir, 10:8, þeir misstu mann útaf en skoruðu samt tvö og komust í 12:8. Það er mjög slæmt að nýta ekki yfirtöluna, og þegar við vorum manni fleiri spilaði liðið öðruvísi en við höfðum verið að gera á æfingunum fyrir keppnina. Þetta þurfum við að fara yfir og skora.

Svo fengum við ekki nema tvö mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik og þau vantaði sárlega. Við þurfum 5-6 mörk úr hraðaupphlaupum í hvorum hálfleik til að hlutirnir gangi upp og það var dýrt að ná þeim ekki. Einhvern veginn fengum við ekki færin á að keyra þau þó við ætluðum að gera það.

Vörnin skánaði verulega eftir því sem leið á leikinn. Það er að sjálfsögðu ekkert grín að eiga við pólsku skytturnar en ég get ekki kennt vörninni um þetta. Hreiðar varði 18 skot og þeir Vignir, Arnór og Alexander voru með frábæran varnarleik. Það vantaði fyrst og fremst að nýta yfirtöluna, fá fleiri hraðaupphlaup, og nýta betur dauðafærin, sérstaklega þau sem við fengum í fyrri hálfleik.

Það voru nokkur góð færi til að koma þessu niður í eitt mark en þau tókust ekki. Það veit enginn hvernig hefði farið ef við hefðum nýtt þau," sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson, sem strax í kvöld byrjar að búa liðið undir hreinan úrslitaleik gegn Svíum um sæti á Ólympíuleikunum en hann hefst kl. 16.15 hér í Wroclaw á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert