Þurfum gömlu íslensku geðveikina

Róbert Gunnarsson skorar í leiknum gegn Argentínu í gær.
Róbert Gunnarsson skorar í leiknum gegn Argentínu í gær. Jonas Ekströmer / Scanpix

„Það eru gríðarlegur vilji og löngun í þessum hópi til að fara alla leið, enn meiri en oftast áður eftir því sem þeir segja sem hafa verið lengi í kringum liðið," sagði Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik en það mætir Pólverjum í undankeppni Ólympíuleikanna klukkan 18.15 í Wroclaw.

Takist íslenska liðinu að sigra Pólverja í Hala Stulecia, þeirri stórbrotnu keppnishöll, í kvöld verður það á meðal þátttökuliða á Ólympíuleikunum í Peking í sumar.

Óskar Bjarni sagði að undirbúningurinn hefði gengið eðlilega fyrir sig í dag. „Það var æfing fyrir hádegið og síðan fundir þar sem farið var yfir leikinn og mótherjana. Það eru allir klárir í slaginn, enginn með nein meiðsli sem skipta máli, og menn eru fyrst og fremst fullir eftirvæntingar og tilbúnir að takast á við þetta gríðarsterka lið Pólverja."

Hann sagði að íslenska liðið væri undir það búið að Pólverjar reyndu að keyra yfir það með látum á fyrstu 10-15 mínútum leiksins. „Þeir eru vanir að spila þannig og við þurfum að vera tilbúnir til að standa gegn þeim á þessum upphafskafla leiksins, komast yfir hann með þolinmæði og skynsemi, og svo þurfum við ágætan skammt af gömlu íslensku geðveikinni ef okkur á að takast að sigra þá. En það var athyglisvert að Pólverjarnir virtust þreytast fljótt í leiknum við Svía og við reynum að nýta okkur það, nota hópinn vel, keyra hraða miðju á þá og vera tilbúnir á allan hátt," sagði Óskar Bjarni.

Hann fylgdist með leiknum í gærkvöld milli Pólverja og Svía og tók undir það að stemmningin í höllinni hefði verið mögnuð. „Þetta var virkilega skemmtilegt, bæði hávaðinn í áhorfendum og tónlistin sem þeir nota til að kynda upp. Það verður gríðarlegur hávaði á leiknum, það er alveg ljóst."

Íslenska liðið er þessa stundina á hóteli sínu í Wroclaw en er væntanlegt í Hala Stulecia með rútu um 16.30 að íslenskum tíma, um það bil sem fyrri hálfleik hjá Svíþjóð og Argentínu er að ljúka en þar verður flautað til leiks klukkan 16.00.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert