Við nýttum ekki dauðafærin

Arnór Atlason sækir að pólsku vörninni í leiknum í kvöld.
Arnór Atlason sækir að pólsku vörninni í leiknum í kvöld. Jonas Ekströmer / Scanpix

„Það er að sjálfsögðu fúlt að nýta ekki þetta tækifæri til að tryggja okkur sæti á Ólympíuleikunum því þrátt fyrir að við spiluðum illa vorum við inni í leiknum allan tímann," sagði Arnór Atlason landsliðsmaður í handknattleik við mbl.is í Wroclaw, eftir tapið gegn Pólverjum í kvöld.

„Við klúðruðum þremur vítaköstum og heilmörgum dauðfærum af línu og annars staðar. Ég held að það sé einfalda skýringin á þessu tapi, við nýttum ekki dauðafærin. Hraðaupphlaupin gengu ekki, þetta fór í einn graut þarna frammi, og í vörninni fengu þessar þrumuskyttur þeirra að fara of nálægt til að skjóta.

Þeir komu okkur ekki á óvart að neinu leyti, spiluðu eins og við bjuggumst við, og við fengum góða markvörslu frá Hreiðari. Þetta var fyrri möguleikinn af tveimur og við höfum svo sem áður farið erfiðu leiðina. Nú er bara Fjallabaksleiðin í boði," sagði Arnór Atlason, sem átti góðan leik í vörn og sókn og skoraði 6 mörk, 5 þeirra með langskotum, auk þess sem hann átti tvær góðar línusendingar sem gáfu mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert