„Við mætum ískaldir í þennan leik gegn Svíum, það búast fáir við því að við getum lagt þá að velli en við ætlum að láta verkin tala í dag," sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik við fréttavef Morgunblaðsins í Wroclaw í dag. Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 16.15 en það er hreinn úrslitaleikur um hvort liðið kemst á Ólympíuleikana í Peking í ágúst.
„Við höfum notað daginn vel til að fara yfir leikinn gegn Pólverjum í gærkvöld og leggja upp hvernig best sé að spila gegn Svíunum. Það sem við þurfum að bæta frá því í gær er hvernig við spilum manni fleiri. Þegar leikurinn við Pólverja er skoðaður má hreinlega segja að við höfum tapað leiknum á því að nýta okkur ekki þá stöðu að vera manni fleiri þegar hún gafst.
Úrslitin ráðast á svona atriðum og þau verða að vera í lagi. Svo vantaði hraðaupphlaupin hjá okkur í fyrri hálfleik og þeim þurfum við að ná í gang í dag. Svíarnir eru með sterka vörn og góða markverði og við verðum fyrst og fremst að vera skynsamir og þolinmóðir gegn þeim, ná hraðaupphlaupum og sækja á þá í hornunum því þeir eru mjög þéttir fyrir á miðjunni," sagði Guðmundur.
Allir leikmenn íslenska liðsins eru heilir heilsu eftir átökin í gær. „Það er ekkert sem truflar okkur að því leyti og það eru allir tilbúnir í þennan slag og ætla að selja sig dýrt," sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson.