Sænska ríkissjónvarpið fullyrti í kvöld að ákveðið hefði verið að segja Ingemar Linnéll, landsliðsþjálfara Svía í handknattleik, upp störfum eftir tapið gegn Íslendingum í Wroclaw, en þar misstu Svíar af því að komast á Ólympíuleikana.
Samkvæmt sænska sjónvarpinu þá verður þetta formlega afgreitt á fundi sænska handknattleikssambandsins í vikunni. Fulltrúi sambandsins, Arne Elovsson, sagði við netútgáfu Dagens Nyheter að Linnéll væri þjálfari þar til annað væri formlega gefið út.
Sænska sjónvarpið segir jafnframt að Staffan Olsson, eða "Faxi" eins og Íslendingar þekkja hann best, sé líklegastur til að taka við landsliðinu. Hann gerði á dögunum Hammarby að sænskum meisturum og nýtur gífurlegrar virðingar í sænskum handbolta.