„Það var misjafnt hvernig menn brugðust við þessum
úrslitum. Sumir fóru að gráta, aðrir fóru að hlægja og enn aðrir misstu sig í
fögnuði. Ég er ekki ennþá búinn að átta mig á þessu en það kemur seinna,“ sagði
Róbert Gunnarsson línumaður íslenska landsliðsins við mbl.is.
„Það er ljóst að maður þarf að fara undirbúa
sig vel undir langa flugferð til Peking. Þetta var ótrúlegur leikur og það var
alveg á hreinu frá fyrstu mínútu að við vorum á leiðinni að vinna hann. Við
vorum hrikalega vel stemmdir, fögnuðum allir eins og geðsjúklingar þegar við
gerðum eitthvað vel, og spiluðum með hjartanu. Með þessu brutum við þá niður smám
saman, við gáfumst ekki upp þó við klikkuðum á einu og einu færi, og vissum að
Svíarnir myndu fara á taugum. Þeir voru bara pappakassar í þessum leik! Og
Hreiðar var hreint stórkostlegur í markinu,“ sagði Róbert sem skoraði þrjú mörk
af línunni.
Svíarnir voru hræddir
„Þetta var bara geðveiki, eins og við gáfum út
fyrir leikinn. Við vorum tilbúnir og vel stemmdir, börðumst hver fyrir annan og
gáfum ekkert eftir. Svíarnir voru hræddir við okkur og stressaðir og við nýttum
okkur það,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson sem átti góða innkomu í sigurleikinn gegn
Svíum og skoraði tvö mörk á dýrmætum augnablikum. „Þetta er það sem við getum á
góðum degi. Við vorum komnir með bakið uppvið vegg eins og vanalega og þá kom
ekkert annað til greina en sigur. Við
tókum þá og erum á leið til Peking. Það er hrikalega magnað og verður mikil
upplifun. Nú fögnum við þessu, tökum svo Makedóníu og byrjum að
undirbúa okkur fyrir Peking,“ sagði Ásgeir Örn.