„Það skipti gríðarlega miklu máli að við skyldum vera með Hreiðar í því formi sem hann var á þessu móti og það getum við þakkað Svíanum Claes Hellgren fyrir að þjálfa hann svona vel, eins kaldhæðnislegt og það er. Skemmtileg staðreynd,“ sagði Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið eftir sigurinn á Svíum í Wroclaw í gær.
„Ég er búinn að vakna á hverjum morgni í heilt ár með það að markmiði að vera í réttu standi í þessari keppni og komast á Ólympíuleikana og það er því fínt að sjá það verða að veruleika.“
„Sóknin okkar er mjög fín, vel ásættanleg, þótt við klikkum auðvitað á einhverjum dauðafærum. Við erum hraðir, Arnór er að verða ansi sterkur, klókur og áræðinn gaur – ég er geysilega ánægður með hann. Líka með Snorra, um Guðjón Val þarf ekki að ræða, hann er heimsklassaleikmaður, Alexander og Róbert – sóknin er í góðu lagi. Það er því varnarleikurinn sem við þurfum að einbeita okkur að, vörnin sem við spiluðum í dag er byrjunin á nýjum tíma hjá okkur og við eigum eftir að vinna betur í henni næstu tvo mánuðina fram að Ólympíuleikunum. Svo þurfum við bara að semja við Claes Hellgren um tvo mánuði í viðbót,“ sagði Ólafur Stefánsson.