Logi Geirsson er í landsliðshópi Íslands sem Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur valið fyrir leikinn gegn Makedóníu á sunnudaginn kemur. Kemur það mörgum á óvart, ekki síst honum sjálfum, sem telur ólíklegt að hann sé tilbúinn í slaginn.
"Ég er mjög nálægt því að ná fyrri styrk eftir að hafa rifið magavöðva en fyrir utan lyftur og létt hlaup hef ég ekkert spilað eða æft alvarlega í fimm vikur og mér finnst ólíklegt að ég taki þátt í þessum leik þó ég glaður vildi."
Logi ítrekaði þó að hann væri fullur bjartsýni fyrir hönd landsliðsins gegn Makedónum og sagði alls ekki fráleitt að vinna þá með stórum mun.
"Staða sem þessi er nokkuð algeng í handboltanum og Makedónía er þekkt fyrir að standa sig mun verr á útivöllum en heima. Ég er bjartsýnn og verð öskrandi á pöllunum í höllinni. Við getum þetta."