Ísland sigraði Makedóníu með sex mörkum í síðari leik liðanna um laust sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik, sem fram fer í Króatíu í upphafi næsta árs. Lauk leiknum 30:24 fyrir Ísland.
Þar sem Ísland tapaði fyrri leiknum með 8 marka mun, þurftu þeir að vinna heimaleikinn með minnst 8 mörkum. Lokamínúturnar voru dramatískar þar sem Ísland hafði mest 7 marka forustu í leiknum í dag. En svo fór sem fór og Ísland verður ekki meðal þátttökuþjóða í Króatíu í janúar 2009.
„Maður er bara í sárum. Við getum huggað okkur við það að hafa komist á Ólympíuleikana. Það er skemmtileg keppni og verður frábært. En það er ömurlegt að hafa ekki náð þessu. Ég er alveg miður mín,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í viðtali við RÚV strax að leik loknum.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk, Snorri Steinn Guðjónsson gerði 8 og Ólafur Stefánsson var með 7. Hjá Makedóníu skoraði Kiril Lazarov 10 mörk.