Alfreð: „Fæ ekki mörg slík tækifæri“

Alfreð Gíslason hefur tekið við sem þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel.
Alfreð Gíslason hefur tekið við sem þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel. mbl.is/ÞÖK

„Það var stuttur aðdragandi að þessu og ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Þetta er krefjandi verkefni en jafnframt spennandi og ég fæ ekki mörg slík tækifæri á ferlinum sem þjálfari,“ sagði  Alfreð Gíslason í dag en hann skrifaði í dag undir samning til þriggja ára við meistaralið Kiel í þýska handboltanum.

Alfreð var samningsbundinn Gummersbach fram til ársins 2010 en forráðamenn Kiel greiða Gummersbach um 100 milljónir kr. fyrir að leysa Alfreð undan samningi hans við Gummersbach. Zvonimir Serdarusic hefur þjálfað Kiel allt frá árinu 1993 en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Kiel.

„Kjarninn í Kiel er frekar ungur og ég geri ekki ráð fyrir að það verði miklar breytingar á leikmannahópnum. Það er vissulega erfitt að fara frá Gummersbach en ég tel að liðið eigi eftir að verða betra á næstu leiktíð en það var í ár þrátt fyrir að þrír Íslendingar séu á förum frá liðinu,“ sagði Alfreð.

Alls hefur Kiel unnið þýska meistaratitilinn 14 sinnum og þar af fjögur s.l. ár en liðið sigraði í þýska bikarnum s.l. 2 ár. Kiel tapaði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Ciudad Real frá Spáni en með Kiel leika margir þekktir kappar og má þar nefna franska markvörðinn Thierry Omeyer og landa hans Nikola Karabatic. Svíarnir Kim Andersson, Stefan Lövgren og Marcus Ahlm eru í Kiel líkt og Christian Zeitz úr heimsmeistaraliði Þjóðverja.

Nánar í Morgunblaðinu á morgun.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert