Svíar í sama basli og Íslendingar

Staffan Olsson hyggst ekki taka við liðinu sem hann lék …
Staffan Olsson hyggst ekki taka við liðinu sem hann lék svo lengi með. Reuters

Skammt er að minnast þess þegar enginn virtist vilja taka við þjálfun íslenska landsliðsins í handknattleik í vetur, og nú er sama staða komin upp hjá frændum vorum í Svíþjóð eftir að ljóst varð að Ingemar Linnéll myndi ekki stýra sænska landsliðinu áfram.

Linnéll mistókst að koma Svíþjóð á Ólympíuleikana þegar liðið tapaði fyrir Íslandi í byrjun júní. Þá varð ljóst að samningur Linnéll, sem rennur út eftir Ólympíuleikana, yrði að öllum líkindum ekki endurnýjaður.

Síðan þá hefur sænska handknattleikssambandið sett sig í samband við fjóra aðila sem allir hafa hafnað tilboði um að gerast landsliðsþjálfarar, að því er sænska ríkissjónvarpið greinir frá. Þetta eru þeir Ola Lindgren, sem verið hefur aðstoðarlandsliðsþjálfari og þjálfar einnig Nordhorn, Kent-Harry Andersson, þjálfari Flensburg, Ulf Schefvert, þjálfari Snorra Steins Guðjónssonar og Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar hjá GOG, og hinn síðhærði „vinur“ okkar Íslendinga, Staffan Olsson sem nú þjálfar Hammarby.

„Ég sá strax að það yrði of erfitt fyrir mig að einbeita mér að þessu verkefni samhliða því að þjálfa Nordhorn,“ sagði Lindgren í samtali við sænska ríkissjónvarpið, og svipaða sögu er að segja af Andersson, en ekki er vitað um ástæður þeirra Schefvert og Olsson.

Að sögn Arne Elovsson, talsmanns sænska handknattleikssambandsins, er þó engin ástæða til að örvænta enn sem komið er. „Það liggur ekkert á, Linnéll stýrir liðinu í leikjunum í júlí en við verðum að finna út úr þessu fyrir haustið. Við erum með tvö nöfn ofarlega í huga,“ sagði Elovsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert