„Það er ákveðin eftirvænting í hópnum, eftir stífar æfingar síðustu viku, að fá að spila við þá aftur. Við vitum náttúrlega að Spánverjarnir eru mjög sterkir og það er gaman að glíma við þá,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik, en Ísland leikur tvo æfingaleiki við Spánverja í Vodafone-höllinni um helgina.
„Það var strax ákveðið að fá þá hingað þegar það var ljóst að við yrðum ekki með þeim í riðli á Ólympíuleikunum. Við reynum að forðast að mæta þeim liðum og höfum verið heppnir því við fáum bæði þessa leiki og svo æfingamót þar sem við spilum við Spánverja, Frakka og Egypta. Reyndar eru Egyptar með okkur í riðli á ÓL en ég held að það gæti reynst vel að kynnast þeirra kostum og göllum betur,“ sagði Guðmundur.
Rætt er við landsliðsþjálfarann í Mogganum í dag.