„Takk fyrir mig, Eggert“

Sigfús Sigurðsson tekur hraustlega á Svíanum Kim Andersson.
Sigfús Sigurðsson tekur hraustlega á Svíanum Kim Andersson. mbl.is/Jonas Ekströmer

Sigfús Sigurðsson, varnarmaðurinn sterki í landsliði Íslands í handknattleik, hefur nýtt sumarið til að koma skrokknum í betra stand undir handleiðslu frjálsíþróttaþjálfarans Eggerts Bogasonar. Þær æfingar hafa heldur betur skilað árangri fyrir Sigfús, sem hefur lengi glímt við meiðsli á hné, og hann segir líkamlegt ástand sitt ekki hafa verið betra í mörg ár.

 „Eggert setti bara upp allsherjaræfingaáætlun fyrir mig og fór með mig í gegnum hana, og svo hef ég unnið út frá henni sjálfur í kjölfarið. Það hefur skilað sér mjög vel því ég hef allur styrkst, er hættur að nota spelku og er í staðinn bara með venjulega hitahlíf, og finn ekkert fyrir hnénu þannig að þetta er allt á réttri leið. Ég segi því bara: „Takk fyrir mig, Eggert Bogason.“

Þetta gerir það að verkum að í fyrsta skipti í mörg ár get ég verið með af fullum krafti á öllum æfingum með landsliðinu. Það er langt síðan ég hef verið í svona góðu standi og ég á það að þakka þessum æfingum Eggerts,“ sagði Sigfús.

„Þessar æfingar sem hann kenndi mér eru svona venjulegar frjálsíþróttaæfingar sem reyna á allan skrokkinn í einu en ekki bara einhvern ákveðinn vöðvahóp. Þannig fær maður líkamann til að beita sér rétt og þetta virkaði mjög vel,“ sagði Sigfús, en hann hefur nú lagt frjálsíþróttaæfingarnar til hliðar og æfir af kappi með landsliðinu sem mætti Spáni í gærkvöld og aftur í dag, en leikirnir eru hluti af undirbúningnum fyrir Ólympíuleikana í ágúst.

„Það er náttúrulega ekkert sjálfgefið í þessu og enginn öruggur um að komast til Kína en ég vonast náttúrulega til að fara. Miðað við standið á mönnum og hvernig æfingarnar hafa verið þá lýst mér mjög vel á þetta. Það eru allir að leggja sig fram á fullu á æfingum og ekkert um það að menn séu að gera hlutina með hálfum huga. Það vilja bara allir leggjast á eitt um að liðið verði í toppstandi á Ólympíuleikunum.

Ólympíuleikarnir eru náttúrulega „Mekka“ íþróttanna og fyrir okkur sem erum að keppa í liðsíþrótt er mjög erfitt að komast þangað. Þetta er öðruvísi fyrir frjálsíþrótta- og sundfólk sem hefur möguleika í mörgum mótum, á meðan við getum bara komist með því að verða Evrópu- eða heimsmeistarar, eða þá með því að vinna umspilsriðilinn eins og við gerðum núna. Þetta er því mikill áfangi fyrir okkur og það er bara þannig með alla handknattleiksmenn í heiminum að þeir líta á Ólympíuleikana sem stærsta mótið,“ sagði Sigfús, og hann segir kærkomið að fá að mæta Spánverjum eftir stífar æfingar síðustu viku.

„Liðin eru kannski á mismunandi stöðum í undirbúningi þannig að það verður bara forvitnilegt og gaman að sjá hvernig þau standa. Aðallega er náttúrulega gott að fá smá tilbreytingu og vera ekki bara alltaf að eiga hver við annan á æfingum. Tækifærið verður eflaust nýtt til að prófa ýmislegt en við förum í alla leiki til að vinna. Það er auðvitað fótbolti og margt annað í gangi en það gefur okkur mikið að fá góðan stuðning, og ég hvet fólk eindregið til að mæta og hvetja okkur til dáða á næstu vikum,“ sagði Sigfús, en Ísland mætir Spáni öðru sinni í Vodafone-höllinni kl. 16 í dag.

Í 24 stundum í dag segir Eggert Bogason m.a. að hann hefði viljað fá Sigfús fyrr til þess að ná enn betri árangri með hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert