Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði sínum fyrsta leik á heimsmeistaramótinu í Makedóníu í kvöld. Liðið beið lægri hlut fyrir Rúmenum, 32:28.
Rúmenar voru yfir lengst af, Ísland jafnaði 10:10, en í hálfleik var staðan 15:13 fyrir Rúmena sem voru síðan 3-4 mörkum yfir í síðari hálfleiknum.
Íslenska liðið verður nú að bíða þar til annað kvöld til að vita hvort það kemst í efri hluta úrslitakeppninnar eða í þann neðri en það situr hjá í lokaumferð mótsins.