Olsson og Lindgren taka við sænska landsliðinu

Staffan Olsson var einn besti handboltamaður heims um árabil.
Staffan Olsson var einn besti handboltamaður heims um árabil. Reuters

Sænska handknattleikssambandið tilkynnti nú í hádeginu að Staffan Olsson og Ola Lindgren hefðu verið ráðnir þjálfarar handknattleikslandsliðs Svía. Þeir koma í staðinn fyrir Ingemar Linnéll sem hætti störfum eftir að Svíar töpuðu fyrir Íslendingum í úrslitaleiknum um sæti á Ólympíuleikunum í byrjun júní.

Olsson og Lindgren eru af hinni sigursælu kynslóð Svía sem voru með sænska landsliðinu í hæstu hæðum á árunum 1986 til 2004. Olsson, sem jafnan var kallaður "Faxi" af Íslendingum, lék 358 landsleiki og Lindgren lék 376 landsleiki en þeir eru báðir 44 ára gamlir. Aðeins félagi þeirra, Magnus Wislander, hefur spilað fleiri landsleiki fyrir Svía, 384 talsins.

Báðir halda þeir áfram að þjálfa sín félagslið en Olsson gerði Hammarby að sænskum meisturum á síðasta tímabili og Lindgren hefur náð góðum árangri með Nordhorn í Þýskalandi.

Fyrsta verkefni þeirra með sænska landsliðið er þátttaka í undankeppni Evrópumótsins en þar leika Svía fyrst við Georgíumenn í lok október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert