Íslenska U18 ára landslið karla í handknattleik tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Tékklandi. Sigraði íslenska liðið Frakkland með tíu marka mun, 35:25. Fylgja Íslendingar því Dönum upp úr milliriðlinum í undanúrslitin.
Jafnt var í hálfleik, 13:13, en í síðari hálfleik tók íslenska liðið öll völd á leikvellinum eins og úrslitin gefa til kynna.
Aron Pálmarsson var markhæstur í íslenska liðinu með 8 mörk, Oddur Grétarsson skoraði sex mörk, Guðmundur Árni Ólafsson, Ólafur Guðmundsson og Ragnar Jóhannsson skoruðu fimm mörk hvor, Heimir Óli Heimisson skoraði fjögur mörk og Örn Ingi Bjarkason tvö.
Sigurður Örn Arnarson varði 15 skot í marki Íslands.
Það ræðst í kvöld hverjir andstæðingar Íslands verða í undanúrslitunum.