Fram varð Reykjavíkurmeistari karla

Fram varð í dag Reykjavíkurmeistari karla í handknattleik þrátt fyrir að hafa tapað úrslitaleiknum á opna Reykjavíkurmótinu fyrir HK, 26:21. Eins og gefur að skilja geta félög utan Reykjavíkur ekki orðið Reykjavíkurmeistarar. HK var hinsvegar mótið með fyrirhafnarlitlum sigri á Fram.

HK var með forystuna gegn Fram frá upphafi til enda leiksins. Í hálfleik munaði þremur mörkum, 12:9.

„Þetta var þriðji leikurinn okkar í dag í mótinu og því notuðum við bara króatísku aðferðina að þessu sinni og lékum afar hægt og við fengum að komast upp með það," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari HK að leikslokum.

Valdimar Þórsson, sem ekki er formlega genginn til liðs við HK en lék eigi að síður með þeim, var markahæstur með 6 mörk. Jón Björgvin Pétursson kom næstur með 5 mörk ásamt Gunnari Jónssyni.

Akureyri vann Stjörnuna í leik um þriðja sætið, 28:24. 

Hjá Fram skoruðu Rúnar Kárason og Andri Berg Haraldsson mest, 6 mörk hvor.

Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki HK og varði um 20 skot. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert