Fyrstu stig Aftureldingar og ÍR

Daði Pálsson skorar fyrir Eyjamenn gegn ÍR í kvöld.
Daði Pálsson skorar fyrir Eyjamenn gegn ÍR í kvöld. mbl.is/Frikki

Afturelding vann öruggan sigur á Þrótti úr Reykjavík í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 27:22, á heimavelli Þróttara í Laugardalshöll, á meðan ÍR lagði lið ÍBV 34:31 í sömu deild.

Eru þá þrír fyrstu leikir vetrarins í 1. deild handboltans að baki en fyrir utan þessa tvo leiki náði Selfyssingar góðum tveimur stigum á útivelli gegn Gróttu, 29:25, eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld. Unnust því tveir af þremur fyrstu leikjum deildarinnar á útivelli.

Í Austurberginu var staðan í hálfleik 16:14, ÍR-ingum í hag en um 150 áhorfendur fylgdust með viðureign liðanna. ÍR missti naumlega af sæti í úrvalsdeildinni síðasta vor en ÍBV féll þaðan.

Brynjar Steinarsson skoraði 11 mörk fyrir ÍR, Ólafur Sigurgeirsson 6 og Þorgrímur Ólafsson 5. Sigurður Bragason gerði 10 mörk fyrir Eyjamenn og þeir Sindri Ólafsson og Svavar Vignisson 4 mörk hvor.

Afturelding var yfir gegn Þrótti í hálfleik, 14:12, og náði síðan mest níu marka forystu í seinni hálfleik en Þróttarar minnkuðu muninn á ný. Hilmar Stefánsson skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu, Vlad Trufan 6 og Einar Örn Guðmundsson 5 en Jón Gunnlaugsson var atkvæðamestur hjá Þrótti með 8 mörk og Friðgeir Jónsson gerði 5.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka