Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla, segist ekki hafa í hyggju að banna leikmönnum danska landsliðsins að drekka bjór í keppnisferðum, þótt að að nokkrir þeirra hafi drukkið sig ofurölvi kvöld eitt á meðan Ólympíuleikarnir í Peking stóðu yfir.
Wilbek segir hinsvegar að leikmenn verði að gera sér ljóst að það sé mikill munur á því að fá sér einn eða tvo bjóra eftir leik eða þá að drekka frá sér ráð og rænu. Hann ætli áfram að leyfa mönnum að drekka bjór eftir leiki landsliðsins á meðan hann er við stjórnvölin.
„Í landsliðinu eru fullorðnir menn og ég á ekki að þurfa að setja sérstakar reglur. Ég er ekkert fyrir reglur, boð og bönn. Slíkt er ekki hluti af mínum stjórnunarsið," segir Wilbek sem hefur nokkuð verið gagnrýndur í heimalandi sínu eftir að fregnaðist af drykkju danska landsliðsins í Peking eftir að það hafði misst af sæti í undanúrslitum.
„Þegar við tökum þátt í mótum þá oft uppspenntir þegar þeir koma loks út á hótel seint á kvöldin. Þá tel ég að það skaði engan að drekka einn eða tvo bjóra fyrir svefninn. Menn sofa bara betur af því. Hinsvegar er alveg ljóst að það á ekki að vera þörf á að sitja og fylgjast með að menn jafnvel komnir á fertugsaldri misnoti ekki tækifærin með því að drekka frá sér ráð og rænu. Við erum ekki að tala um neina táninga," segir Wilbek sem er þekktur fyrir að mæta á blaðamannafundi skömmu eftir leiki með bjórglas í hendi.
„Fram til þessa atviks í Peking þá hefur öldrykkja leikmanna ekki verið vandamál í landsliðsliðinu síðan ég tók við stjórn þess fyrir rúmum þremur árum. Og þrátt fyrir þetta eina atvik þá tel ég ekki þörf á að setja mönnum einhverjar reglur í þessum efnum," segir Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik.