Ólafur Stefánsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik gefur ekki kost á sér í landsliðið í komandi verkefni þess að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Íslenska landsliðið leikur því án Ólafs í leikjunum við Belga og Norðmenn í undankeppni Evrópumótsins en undankeppnin hefst í lok mánaðarins.
Ólafur segir í viðtalinu við Fréttablaðið að þessi ákvörðun sín þýði þó ekki að hann sé endanlega hættur með landsliðinu en hann segist hafa tjáð Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara ákvörðun sína á dögunum.
,,Það er í raun engin sérstök skýring en ég hef í það minnsta ákveðið að gefa ekki kost á mér fram í janúar. Ég mun síðan sjá hvernig staðan verður í janúar,“ segir Ólafur við Fréttablaðið.