Tryggvi og Hafsteinn ekki með Haukum í vetur

Aron Kristjánsson hefur misst tvo af sínum leikmönnum en yngri …
Aron Kristjánsson hefur misst tvo af sínum leikmönnum en yngri menn munu fylla í skörðin. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn handknattleiksdeildar Hauka hefur samið við þá Tryggva Haraldsson og Hafstein Ingason um að slíta samstarfi. Tryggvi og Hafsteinn komu í Hafnarfjörðinn frá Ribe í Danmörku fyrir þessa leiktíð en hafa ekki staðið undir væntingum.

Í fréttatilkynningu frá Haukum vegna málsins segir:

Tryggvi og Hafsteinn hætta strax að æfa og leika með Haukaliðinu og ætla að finna sér nýtt lið. Því miður hefur árangur samstarfsins ekki verið nægjanlegur og því fengu leikmennirnir tækifæri til að finna sér nýtt lið. Við óskum þeim velfarnaðar á nýjum stað. Haukar eiga mikið af efnilegum leikmönnum og er markmið félagsins að skila sem flestum upp í meistaraflokk félagsins. Það mun einmitt koma í hlut efnilegra leikmanna Hauka að fylla skörð þessara leikmanna.

Þegar mbl.is náði tali af Tryggva kvaðst hann ekkert vilja tjá sig um málið að öðru leyti en því að ólíklegt væri að hann færi til annars liðs áður en félagaskiptaglugginn lokar 1. nóvember. Ekki náðist í Hafstein vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert