Enginn Ólafur Stefánsson er í þeim hópi sem Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur valið fyrir forkeppni Evrópumeistaramótsins í handbolta. Guðmundur er þó bjartsýnn að hann skili sér í hópinn aftur einn góðan veðurdag.
„Það var svo sem vitað að hann vildi taka sér hlé og ég hafði það í huga þegar ég setti hópinn nú saman. Það er ekkert útilokað með Ólaf í framtíðinni og sjálfur tel ég líklegt að hann komi fljótlega til með að sakna hópsins og sláist í för með okkur á nýjan leik fyrr en síðar.“
Hópurinn sem Guðmundur velur nú er talsvert breyttur frá silfurhópnum sem náði stórkostlegum árangri á Ólympíuleikunum en það er fyrst og fremst vegna meiðsla lykilleikmanna. „Það vantar marga góða leikmenn eins og Snorra Stein, Aleksandrs, Sigfús og Bjarna Fritzson sem allir eru frá vegna meiðsla og það er aldeilis skarð fyrir skildi. Á móti kemur að ég tek inn stráka á borð við Aron Pálmarsson og það er í takt við mína stefnu að hugsa líka til framtíðar hvað landsliðið varðar.“
Guðmundur metur leikina í næstu viku gegn Belgíu og Noregi erfiða. „Belgía er nokkuð óskrifað blað og því ber að fara varlega að þeim en ljóst er að Norðmennirnir á heimavelli verða erfiðir viðureignar. En við gerum okkar besta vænti ég.“