Lúxemborgarar sýndu Ólympíumeisturum Frakka enga sérstaka virðingu þegar þjóðirnar mættust í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Lúxemborg í gærkvöldi. Lengst af leiknum áttu leikmenn Lúxemborgar í fullu tré við ólympíumeistaranna en urðu að gefa eftir á endasprettinum, lokatölur 30:21, fyrir Frakkar eftir að aðeins munaði tveimur mörkum á þjóðunum í hálfleik, 15:13.
Lúxemborgarar eru ekki á meðal stærri handknattleiksþjóða Evrópu en áhugi fyrir íþróttinni hefur farið vaxandi síðustu ár og meðal annars tók meistaralið landsins þátt í forkeppni meistaradeildar Evrópu í haust.
Alls mættu 4.600 áhorfendur á leikinn í Lúxemborg í gær sem er met þar í landi en áður höfðu áhorfendur verið flestir 2.200 á handboltaleik í landinu. Vel studdir af áhorfendum sýnu leikmenn Lúxemborgar fínan leik og náðu m.a. einu sinni forystu, 8:7. Frakkar áttu greinilega ekki von á þessari miklu mótspyrnu og voru mestu vandræðum með leik sinn en tókst að ná tveggja marka forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks, 15:13.
Þegar á leið síðari hálfleik kom berlega í ljós að Frakkar voru í betra líkamlegu formi en leikmenn Lúxemborgar og þar með sigldu þeir fyrrnefndu framúr og unnu loks með níu marka mun.
Þetta var fyrsti landsleikur Frakka eftir að þeir unnu Íslendinga í úrslitaleik handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Peking.