Ekki nóg með að íslenska silfurliðið í handbolta karla frá því á Ólympíuleikunum í sumar leiki við Norðmenn ytra í dag klukkan 15 heldur fer fram heil umferð í N1-deild kvenna í handknattleik einnig í dag.
Taplaust lið Stjörnunnar sem trónir á toppi deildarinnar fær FH í heimsókn í þessari 6. umferð Íslandsmótsins í Mýrinni. HK tekur á móti stigalausu botnliði Fylkis í Digranesi og Valskonur sækja Gróttu heim á Seltjarnarnesið. Þá mætast Haukar og Fram á Ásvöllum í Hafnarfirði. Haukar eru í 2. sæti með 8 stig, en silfurlið síðasta tímabils, Fram er aðeins með 4 stig. Haukar unnu góðan útisigur á Val í síðustu umferð en Fram fór létt með FH.
Allir leikirnir í N1-deild kvenna hefjast klukkan 13:00 og því góður forréttur að skella sér á deildarleik áður en horft er á „strákana okkar“ leika gegn Noregi í Drammen síðar í dag.