FH-ingar unnu Hafnarfjarðarslaginn

Ólafur Andrés Guðmundsson skýtur að marki Hauka í leiknum í …
Ólafur Andrés Guðmundsson skýtur að marki Hauka í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar

FH-ingar dansa, klappa og stappa um allt íþróttahúsið í Kaplakrika núna eftir að þeir unnu slaginn um Hafnarfjörð með því að leggja Hauka, 29:28, í N1 deild karla í handknattleik í kvöld. Sigurmarkið skoraði Aron Pálmarsson 50 sekúndum fyrir leikslok. Haukar áttu síðustu sókn leiksins en tókst ekki að skora og FH fangaði sigri að viðstöddum að minnsta kosti 2.500 áhorfendum og er því áfram í efsta sæti deildarinnar.

Haukar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:13, en FH-liðið kom mjög ákveðið til leiks í síðari hálfleik og náði að jafna metin þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Það var ekki síst að þakka bættum varnarleik og frábærri frammistöðu Magnúsar Sigmundssonar í marki FH. Eftir að FH jafnaði var jafnt á nær öllum tölum.

Sem fyrr segir kom Aron FH yfir þegar 50 sekúndur voru eftir. Einar Örn Jónsson brenndi af í góðu færi hinum megin vallarins 10 sekúndum síðar. Leikmenn FH geystust í sókn en Hjörtur Hinriksson missti boltann og Haukar fóru upp í hraðaupphlaup sem Andri Stefán endaði með  marki. Mark hans var dæmt af vegna þess að hann tók of mörg skref að mati dómaranna. FH hélt af stað í sókn en missti boltann á eigin vallarhelmingi. Haukar reyndu hvað þeir gátu að jafna en tókst ekki. Guðmundur Pedersen, leikmaður FH, var rekinn af leikvelli þegar 5 sekúndur voru eftir og Haukar tóku leikhlé og lögðu á ráðin um hvernig leikurinn skyldi jafnaður á lokasekúndunum. Eftir miklar bollaleggingar freistaði Gunnar Berg að senda knöttinn út í horn á Einar Örn á síðustu stundu en Aron komst inn í slaka sendingu Gunnars og þar með var sigur FH í höfn.

Þetta var svo sannarlega frábær handboltaleikur sem bauð upp á flest  það sem skemmtilegan leik prýðir. Þá spilltu ekki fjölmargir frábærir áhorfendur sem tóku dyggan þátt í leiknum og studdu rækilega við bakið á sínu liði.

Mörk FH: Aron Pálmarsson 10, Guðmundur Pedersen 6/3, Hjörtur Hinriksson 3, Ólafur Guðmundsson 3, Sigurður Ágústsson 2, Jón Helgi Jónsson 2, Sigursteinn Arndal 2, Ásbjörn Friðriksson 1.

Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 9/3, Andri Stefan 6, Einar Örn Jónsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 3, Gísli Jón Þórisson 2, Gunnar Berg Viktorsson 2, Freyr Brynjarsson 1, Pétur Pálsson 1. 

Það ríkir gríðarlega spenna og mikil stemning í íþróttahúsinu í Kaplakrika þegar 10 mínútur eru eftir að viðureign FH og Hauka í N1 deild karla. FH er marki yfir, 26:25, en Jón Helgi Jónsson var að koma liðinu yfir. FH hefur haft forskot síðustu tíu mínútu en Haukar gefa lítið eftir. Magnús Sigmundsson hefur farið á kostum í marki FH í síðari hálfleik. 

Þegar 10 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik í leik FH og Hauka í N1 deild karla í Kaplakrika hafa FH-ingar jafnað metin, 20:20. Ólafur Guðmundsson jafnaði með þrumuskoti efst í markhornið hægra megin. Birki Ívari Guðmundssyni markverði Hauka var skipt út af í framhaldinu. Nú rétt í þessu var Magnús Sigmundsson, markvörður FH, að verja vítakast frá Einari Erni Jónssyni. FH á því möguleika á að komast yfir. 

Fimm mínútur eru liðnar af síðari hálfleik í viðureign FH og Hauka í N1 deild karla í handknattleik að viðstöddum vel á þriðja þúsund áhorfendum í íþróttahúsinu í Kaplaleika. Staðan er 19:16 Haukum í vil en þeir voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13. 


Nú hefur flautað til hálfleiks í viðureign FH og Hauka í N1 deild karla í handknattleik í íþróttahúsinu í Kaplakrika. Haukar hafa fjögurra marka forskot, 17:13, en stuðningsmenn FH klöppuðu sínu liði lof í lófa þegar það gekk til búningsklefa. Haukar hafa verið sterkari allan hálfleikinn og haft tveggja til fjögurra marka forskot.

Vörn og markvarsla FH hefur verið lakari en hjá Haukum auk þess sem fljótfærnisleg mistök í sókninni hafa verið fleiri hjá sóknarmönnum FH.

Frábær stemning er í íþróttahúsinu þar sem stuðningsmenn beggja liða láta vel í sér heyra. Heiðursgestir leiksins eru Íslandsmeistarar FH í knattspyrnu karla og Íslands- og bikarmeistarar FH í frjálsíþróttum.

Mörk FH í fyrri hálfleik: Aron Pálmarsson 5, Guðmundur Petersen 3, Hjörtur Hinriksson 2, Ásbjörn Friðriksson 1, Sigursteinn Arndal 1, Ólafur Guðmundsson 1.

 Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 5, Kári Kristján Kristjánsson 3, Andri Stefan 3, Gunnar Berg VIktorsson 2, Einar Örn Jónsson 2, Freyr Brynjarsson 1, Gísli Jón Þórisson 1.

Eftir rúmlega 20 mínútna leik FH og Hauka tók Elvar Erlingsson, þjálfari FH, það til bragðs að óska eftir leikhléi. Hvorki hefur gengið né rekið hjá hans lærisveinum sem eru fimm mörkum undir, 12:7. Talið er 2.500 áhorfendur séu í Kaplakrika á þessu stórleik Hafnarfjarðarliðanna í N1 deild karla í handknattleik. Langt er um liðið síðan annar eins mannfjöldi hefur mætt á kappleik á Íslandsmóti karla í handknattleik.

Nú eru 15 mínútur liðnar af viðureign FH og Hauka í N1 deild karla í handknattleik. Haukar hafa farið mun betur af stað og verið með tveggja til fjögurra marka forskot. Rétt í þessu var Guðmundur Pedersen að minnka muninn fyrir FH og staðan er því, 9:7, Haukum í vil. 

Um 2.000 áhorfendur eru mættir á stórleik FH og Hauka í Kaplakrika í N1 deild karla en leikur er ný hafinn. Stuðningsmenn FH sem sitjan öðrum megin í Kaplakrikahúsinu stóðu upp og hylltu leikmenn sína þegar þeir voru kallaðir fram á gólf íþróttahússins einn af öðrum undir sterkum flóðljósum.

Haukar áttu fystu sókn leiksins og skoraði Kári Kristján Kristjánsson fyrsta mark viðureignarinnar fyrir Hauka eftir sendingu frá Gunnari Berg Viktorssyni. FH-ingar byrja með því að leika framliggjandi vörn líkt og Valsmenn gerðu gegn Haukum fyrir skömmu með góðum árangri.

Aron Pálmarsson var að jafna metin fyrir FH með gegnumbroti, 1:1. Tvær mínútur eru liðnar af leiknum.

Sigurbergur Sveinsson kom Haukum strax yfir, 2:1, með marki úr vítakasti, en Aron jafnaði að bragði 2:2, og þrjár mínútur liðnar af leiknum og má engu muna að þakið lyftist af íþróttahúsinu í Kaplakrika við jöfnunarmark Arons.

FH-ingar sækja að marki Hauka á upphafsmínútunum í kvöld.
FH-ingar sækja að marki Hauka á upphafsmínútunum í kvöld. mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert