,,Vitum að þeir eru smeykir við okkur“

Sigurbergur Sveinsson og félagar hans í Haukaliðinu mæta Flensburg í …
Sigurbergur Sveinsson og félagar hans í Haukaliðinu mæta Flensburg í kvöldþ mbl.is/Brynjar Gauti

Íslandsmeistarar Hauka ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í kvöld en þá fá þeir þýska stórliðið Flensburg í heimsókn í fjórðu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta.

Þetta er síðasti heimaleikur Hauka í riðlakeppninni og stefnir Hafnarfjarðarliðið á að landa sínum þriðja sigri en Haukar hafa lagt að velli bæði Zaporozhye og Veszprém.

Flensburg hefur undanfarinn áratug verið í hópi bestu félagsliða heims. Það varð þýskur meistari fyrir fjórum árum, bikarmeistari árin 2003 og 2005, Evrópumeistari bikarhafa 2001 og lék til úrslita í meistaradeildinni 2004 og 2007 en tapaði í bæði skiptin. Flensburg er sem stendur í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar á eftir Kiel en oftar en ekki hafa þessi tvö lið barist um titilinn. Þar hefur Kiel oftast haft betur en Flensburg hefur átta sinnum hafnað í öðru sæti í deildinni.

Skandinavískur blær

Það má með sanni segja að skandinavískur blær sé yfir liði Flensburg. Með liðinu leika 5 Danir, 3 Svíar, 1 Norðmaður og Alexander okkar Petersson sem því miður getur ekki leikið í kvöld þar sem hann er á sjúkralistanum. Meðal þekktra leikmanna í þýska liðinu er danski hornamaðurinn Lars Christiansen sem um árabil hefur verið einn sá besti í heimi. Landi hans Michael Knudsen er frábær línumaður og ekki síður stórskyttan Lasse Boesen. Aðalmarkvörður liðsins er Svíinn Dan Beutler sem er frábær á milli stanganna og þá leikur með liðinu hinn smái og knái Svíi Ljubomir Vranjes sem oftar en ekki hefur gert Íslendingum skráveifu á handboltavellinum.

,,Við vitum að leikmenn Flensburgar eru smeykir við þennan leik í ljósi þess að við stóðum í þeim í fyrri leiknum og unnum sigur á Veszprém. Þetta er hins vegar feikilega sterkt lið og það er upplifun að sjá það spila. Það spilar afar skemmtilegan handbolta og í liðinu eru margir afar góðir leikmenn,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, við Morgunblaðið.

,,Þetta er mjög þýðingarmikill leikur fyrir Flensburg því ef það tapar þessum leik á það á hættu að komast ekki áfram. Við erum í þeirri stöðu að með sigri eigum við möguleika á að fara áfram í 16 liða úrslitin og við ætlum svo sannarlega að spila til sigurs eins og við höfum gert í heimaleikjunum til þessa. Það bjóst enginn við þessum árangri hjá okkur og strákarnir eiga svo sannarlega skilið að fólk fjölmenni, skapi mikla stemningu og styðji við bakið á þeim,“ segir Aron.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert