Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar hans hjá þýska handknattleiksliðinu Rhein Neckar Löwen mæta Króatía Zagreb í meistaradeild Evrópu á heimavelli annað kvöld. Hluti af undirbúningi liðsins verður að fara á nýjustu myndina um njósnarann James Bond, Quantum of Solace í kvöld.
Bæði lið hafa þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar en leikmenn Rhein Neckar Löwen eru staðráðnir í að vinna leikinn og tryggja sér efsta sæti H-riðils, eftir því sem þjálfar RN Löwen, Wolfgang Schwenke, segir í samtali við vef Handknattleikssambands Evrópu.
Uppselt er á leikinn sem fram er í Europahalle of Karlsruhe þar sem SAP-íþróttahöllin í Mannheim er lokuð vegna viðgerða um þessar mundir. Alls seldust 11.000 aðgöngumiðar á leikinn er búist við góðri stemningu. Liðin gerðu jafntefli í fyrri viðureign sinni í Zagreb í haust.
Schwenke segir leikmenn búa sig undir leikinn af miklum krafti í Karlsruhe en hluti af undirbúningum sé að brjóta upp dagskrána og að leikmenn fari saman á nýju James Bond myndina í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti leikmaður Rhein Neckar Löwen í keppninni. Hann hefur skorað 29 mörk í fjórum leikjum og er í 10. sæti yfir markahæstu leikmenn meistaradeildarinnar.