Lærisveinar Dags Sigurðssonar í austurríska landsliðinu í handknattleik virðast eiga nokkuð í land, ætli þeir að ná langt á heimavelli í úrslitakeppni Evrópumótsins í handknattleik árið 2010. Þeir hafa tapað illa fyrir Dönum og Króötum á alþjóðlegu móti sem nú stendur yfir í Austurríki.
Austurríska liðið steinlá fyrir Dönum, 22:39, á föstudaginn og þar voru úrslitin ráðin þegar í hálfleik þegar staðan var 9:21. Í gær veittu Austurríkismenn Króötum heldur meiri keppni, leikurinn var jafn lengi vel en Króatar sigldu framúr í seinni hálfleik og unnu örugglega, 29:21.
Danir unnu Egypta, 30:26, og Króatar unnu Egypta, 27:24. Danir og Króatar mætast í úrslitaleik mótsins í dag og Austurríkismenn og Egyptar leika um þriðja sætið.