Grótta tók á móti Haukum á Seltjarnarnesi í N1 deild kvenna í handknattleik og hófst leikurinn klukkan 16:00. Topplið Hauka hafði góð tök á leiknum og sigraði 37:18 en í hálfleik var staðan 17:7. Haukar eru í efsta sæti, tveimur stigum á undan Stjörnunni sem á leik til góða en Grótta er í 7. sæti.
Markahæst í liði Gróttu var Laufey Ásta Guðmundsdóttir með fimm mörk en Ragna Karen Sigurðardóttir skoraði þrjú. Grótta lék án landsliðsmarkvarðarins Írisar Bjarkar Símonardóttur sem fótbrotnaði á dögunum.
Hjá Haukum var Hanna G. Stefánsdóttir markahæst samkvæmt venju og skoraði ellefu mörk. Ramune Pekarskyte skoraði níu.