Reynir tekur við þjálfun Fylkis

Leikmenn Fylkis hafa fengið nýjan þjálfara.
Leikmenn Fylkis hafa fengið nýjan þjálfara. Eggert Jóhannesson

Reynir Þór Reynisson var í kvöld ráðinn þjálfari kvennaliðs Fylkis í handknattleik sem leikur í N1 deildinni. Honum er ætlað að stýra liðinu úr keppnistímabilið. Fyrir rúmum hálfum mánuði sagði Aðalsteinn Eyjólfsson upp störfum hjá Fylki og réði sig til þýska liðsins SVH Kassel og hljóp þá Ómar Örn Jónsson í skarðið á meðan eftirmanns Aðalsteins var leitað.

Reynir Þór hefur meðal annars verið þjálfari hjá Víkingi og styrði meistaraflokksliði karla á síðasta vetri. Daníel Möller verður áfram aðstoðarmaður þjálfara.

„Við sem að liðinu stöndum erum ánægð með að ráðning þjálfara er í höfn hjá okkur. Við horfum bjartsýn fram á veginn þar sem það er mikill efniviður fyrir hendi í þessu liði okkar," sagði Gunnar Kristinsson, formaður handknattleiksdeildar Fylkis við mbl.is

Fylkisliðið situr í neðsta sæti N1 deildar kvenna, hefur unnið einn leik af ellefu það sem af deildarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka