Fannar Þór Friðgeirsson hefur samið við handknattleikslið Vals um að leika með því út keppnistímabilið. Þetta hefur mbl.is samkvæmt heimildum. Fannar hefur í vetur leikið með Stjörnunni en fyrir skemmstu var leikmönnum Stjörnunnar tilkynnt að ekki yrði hægt að standa við launaliði samninga þeirra. Ákvað Fannar þar með að fara á ný í herbúðir Valsliðsins þar sem hann lék áður.
Fannar mun hafa náð samkomulagi um að leika með bikarmeisturum Vals út leiktíðina sem nú stendur yfir. Hann skipti yfir í raðir Stjörnunnar á síðasta sumri.
Fannar er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í N1 deildinni. Hann hefur skorað 50 mörk í 10 leikjum. Stjarnan er í næst neðsta sæti deildarinnar en Valsmenn í því næst efsta.
Formlega verður gengið frá félagskiptum Fannars úr Stjörnunni í Val á næstu dögum og á hann því að vera klár í slaginn þegar keppni í N1 deildinni hefst á nýjan leik 22. janúar. Þá mæta Valsmenn Íslandsmeisturum Hauka.