Valdimar bætist í hópinn

Valdimar Fannar Þórsson hefur verið kallaður inn íslenska landsliðið í …
Valdimar Fannar Þórsson hefur verið kallaður inn íslenska landsliðið í handknattleik sem leikur í Danmörku um helgina. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Valdimar Þórsson úr HK hefur verið kallaður inní íslenska landsliðshópinn í handknattleik fyrir alþjóðlega mótið sem hefst í Danmörku á morgun. Ísland mætir þar Rúmeníu í fyrsta leiknum í Skjern annað kvöld.

Fjórir leikmanna íslenska liðsins meiddust á mótinu sem lauk í Svíþjóð í gærkvöld en Ísland tapaði þá, 31:35, fyrir Túnis í leiknum um þriðja sætið. Einar Hólmgeirsson og Aron Pálmarsson gátu ekkert leikið með í gær og Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari, sagði við Morgunblaðið í gærkvöld að þeir yrðu að öllum líkindum sendir heim í dag. Ragnar Óskarsson og Hreiðar Levy Guðmundsson markvörður meiddust báðir í leiknum við Túnis en Guðmundur sagði að betri líkur væru á að þeir yrðu leikfærir í Danmörku og afstaða til frekari breytinga yrði tekin í dag.

Þurftum meiri breidd

„Við gátum ekki beðið í óvissu og farið með marga meidda menn til Danmerkur. Það var orðið of mikið álag á vissum leikmönnum, eins og t.d. Loga Geirssyni og Ásgeiri Erni Hallgrímssyni, og það var ekki ásættanlegt. Við þurftum meiri breidd í hópinn, enda sást það gegn Túnis að við vorum sprungnir í seinni hálfleiknum,“ sagði Guðmundur við Morgunblaðið.

Hann var ánægður með fyrri hálfleikinn gegn Túnis í gær. „Hann var mjög góður að flestu leyti, vörn, sókn og markvörslu, en við vorum orðnir of þunnskipaðir eftir að Ragnar meiddist. Við náðum að klóra okkur útúr því lengi vel en þegar við nýttum ekki eina fjóra möguleika til að ná tveggja marka forystu í seinni hálfleiknum var þetta í raun búið hjá okkur. Við náðum ekki að halda í við Túnisbúana og þeir keyrðu yfir okkur á lokakaflanum.“

Guðmundur sagði ýmislegt jákvætt við frammistöðuna í Svíþjóð. „Leikurinn við Egypta var frábær í alla staði og fyrri hálfleikurinn gegn Túnis var góður. Við lékum án margra lykilmanna en yngri menn fengu tækifærið, eins og Sigurbergur Sveinsson og Rúnar Kárason. Þeir áttu að vonum misjafna leiki en voru í raun að stíga sín fyrstu skref.“  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert