Pólverjar tryggðu sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í kvöld með 31:30-sigri gegn Norðmönnum í lokaleik milliriðils 2. Danmörk, Pólland,. Frakkland og Króatía leika í undanúrslitum sem fram fara á föstudag. Þar mæta Danir Ólympíumeistaraliði Frakka. Króatar og Pólverjar eigast við í hinum undanúrslitaleiknum.
Norðmenn voru með tveggja marka forskot þegar ein mínúta var eftir af leiknum, 30:28. Pólverjar skoruðu tvö mörk á lokamínútunni og Norðmenn voru með boltann þegar 15 sekúndur voru eftir.
Þeir tóku markvörðinn útaf í síðustu sókninni þar sem jafntefli dugði ekki til þess að komast í undanúrslit. Kristian Kjelling gerði afdrifarík mistök þegar hann tapaði boltanum í sókninni og Pólverjar brunuðu upp völlinn skoraðu í tómt markið.
Ef liðin hefðu gert jafntefli hefðu heimsmeistarar Þjóðverjar komist áfram í undanúrslitin úr milliriðli 2.
Frakkar og Króatar áttust við í lokaumferð milliriðils 1. Þar höfðu Króatar betur, 22:19 en staðan í hálfleik var 11:7 fyrir Króatíu sem tryggði sér efsta sæti riðilsins með sigrinum. Fyrir leikinn voru bæði liðin örugg með að komast í undanúrslitin.
Igor Vori var markahæstur í liði Króatíu með 6 mörk en
Nikola Karabatic var markahæstur í liði Frakka með 4 mörk.