Mikill taugatitringur hefur verið ríkjandi í Hafnarfirði fyrir leik Hauka og FH sem eigast við í N1-deild karla í handknattleik að Ásvöllum klukkan 19.30 í kvöld. Reiknað er með að á þriðja þúsund Hafnfirðingar og nærsveitungar leggi leið sína á Ásvelli og fylgist með rimmu liðanna sem fyrr í vetur hafa háð tvær æsilegar orrustur í Kaplakrika.
Haukarnir, sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar og eru komnir í toppsæti N1-deildarinnar eftir brösótt gengi framan af, eiga harma að hefna í kvöld en þeir hafa tapað báðum leikjunum á móti FH í vetur. Fyrst í deildinni og síðan í bikarnum og það með sömu markatölu, 29:28, í leikjum sem varla hafa verið boðlegir fyrir hjartveika. Slík hefur spennan verið og má fastlega reikna með því að sama verði uppi á teningnum í kvöld.
Þetta er sannkallaður toppslagur, Haukar eru efstir í deildinni með 18 stig en FH er í þriðja sætinu með 16 stig og því er mikið í húfi.
Morgunblaðið fékk Óskar Bjarna Óskarsson þjálfara Vals og aðstoðarlandsliðsþjálfara til að spá í spilin fyrir Hafnarfjarðaslaginn.
Óskar fer yfir stöðuna í viðtali á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag. Þar er einnig rætt við Kára Kristján Kristjánsson úr Haukum og Aron Pálmarsson úr FH.