Valsmenn urðu í dag bikarmeistarar í handknattleik karla annað árið í röð þegar þeir lögðu Gróttu, 31:24, í úrslitaleik Eimskipsbikarkeppninnar í Laugardalshöll. Valsliðið hafði tögl og haldir allan leikinn. Það var aðeins um stund í upphafi síðari hálfleiks sem Gróttu tókst að minnka muninn niður í tvö mörk, 15:13, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 14:9. Eftir það fengu Valsmenn byr í seglin á ný voru með öruggt forskot til leiksloka.
Grótta leikur í næst efstu deild og var þetta í fyrsta sinn sem lið úr þeirri deild leikur til úrslita í bikarkeppni karla í handknattleik.
60. Flautað hefur verið til leiksloka. Valsmenn eru bikarmeistarar í handknattleik karla 2009.
Mörk Vals: Sigurður Eggertsson 7, Heimir Örn Árnason 5, Arnór Gunnarsson 4, Orri Freyr Gíslason 4, Baldvin Þorsteinsson 3, Hjalti Þór Pálmason 2, Dagur Sigurðsson 2, Elvar Friðriksson 2, Sigfús Páll Sigfússon 1, Gunnar Harðarson 1.
Varin skot: Ólafur Haukur Gíslason 12/1 (þaraf 5 til mótherja).
Utan vallar: 4 mínútur.
Mörk Gróttu: Arnar Freyr Theodórsson 7, Finnur Ingi Stefánsson 7/5, Atli Rúnar Steinþórsson 4, Þórir Jökull Finnbogason 3, Þorleifur Árni Björnsson 2, Davíð Örn Hlöðversson 1.
Varin skot: Hlynur Morthens 15/1 (þaraf 3 til mótherja).
Utan vallar: 10 mínútur.
54. Valsliðið færist nær og nær sigri í Eimskipsbikarnum annað árið í röð, staðan 26:21.
48. Valsmenn halda í horfinu, staðan 23:18.
42. Valsmenn hafa aftur náð þægilegu forskoti. Þrír brottrekstrar á Gróttu á fimm mínútna kafla snemma í hálfleiknum settu leikinn úr jafnvægi og Valsmenn náðu mest sex marka forskoti.
35. Valsmönnum gengur illa gegn framliggjandi vörn Gróttu. Munurinn er kominn niður í tvö mörk, 15:13.
31. Síðari hálfleikur er hafinn.
30. Flautað hefur verið loka fyrri hálfleiks. Gróttumenn hafa sótt í sig veðrið síðustu sex til átta mínútur. Varnarleikur þeirra hefur batnað og Valsmenn verið í basli með að koma boltanum á markið. Þá hefur Hlynur Morthens varið vel í marki Gróttu, 10 skot.
Þótt talsvert skilji liðin að verður að segjast Gróttu til hróss að leikmenn lögðu ekki árar í bát þrátt fyrir hrein hörmulega byrjun á leiknum þar sem þeim lánaðist ekki að skora fyrr en eftir 11 mínútur. Leysi Valsmenn ekki þann vanda sem þeir voru í með sóknarleikinn á lokakafla fyrri hálfleiks gæti leikurinn jafnast meira og kannski orðið spennandi.
Mörk Vals: Sigurður Eggertsson 3, Arnór Gunnarsson 2, Baldvin Þorsteinsson 2, Orri Freyr Gíslason 2, Sigfús Páll Sigfússon 1, Hjalti Þór Pálmason 1, Elvar Friðriksson 1.
Mörk Gróttu: Finnur Ingi Stefánsson 3/2, Arnar Freyr Theodórsson 3, Þorleifur Árni Björnsson 1, Atli Rúnar Steinþórsson 1, Þórir Jökull Finnbogason 1.
25. Eftir nokkrar kæruleysislegar sóknir virðast Valsmenn vera að sækja í sig veðrið á ný. Staðan, 13:6, Val í vil.
19. Valsmenn halda sínu strik og fátt gengur upp hjá Gróttu sem er nú einum leikmmanni færri um stundarsakir
Stuðningsmenn Gróttu láta slæma byrjun sinna manna ekki slá sig út af laginu og láta vel í sér heyra, standa þétt á bak við leikmenn liðsins.
11. Arnar Freyr Theodórsson nær loks að brjóta ísinn fyrir Gróttu með því að skora úr langskoti eftir 10,35 mínútur.
9. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Gróttu, tekur leikhlé og freistar þess að hressa upp á slakan leik sinna manna. Staðan, 5:0, og 8,33 mínútur liðnar af leiknum. Sókn Gróttu rennur út í sandinn og Heimir Örn Árnason bæti við sjötta marki Vals.
7. Valsmenn hafa byrjað leikinn af miklum krafti, jafnt í vörn sem sókn. Staðan, 4:0, þeim í vil. Ólafur Haukur Gíslason varði rétt áðan vítakasti Finns Inga Stefánssonar, leikmanns Gróttu. Valsmenn nú komnir í sókn og eiga möguleika á að bæta við fimmta markinu.
1. Leikurinn er hafinn. Valsmenn byrja með knöttinn. Sigurður Eggertsson skorar fyrsta markið fyrir Val. Grótta byrjar í 6/0 vörn en Valsmenn í í 5/1 vörn gegn miðjumanni Gróttu, Arnari Frey Theodórssyni. Sigurður bætti við öðru marki Vals, 2:0, eftir tvær mínútur.
Verið er að kynna leikmenn til leiks. Meðal leikmanna Vals er Dagur Sigurðsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, núverandi landsliðsþjálfari Austurríkis og næsti þjálfari þýska 1. deildarliðsins Füchse Berlín.
Tveir leikmenn Gróttu hafa leikið með Val; Ægir Hrafn Jónsson og Atli Rúnar Steinþórsson.
Dómarar leiksins eru Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson.
Það er á að giska 1.500 áhorfendur á mættir í Laugardalshöll nú þegar 10 mínútur eru þar til flautað verður til leiks. Stuðningsmenn Gróttu virðast í fljótu bragði vera fjölmennari.