Öll kurl eru ekki komin til grafar

Noka Serdarusic, fyrrum þjálfari Kiel.
Noka Serdarusic, fyrrum þjálfari Kiel. AP

Jesper Nielsen, einn stjórnarmanna þýska handknattleiksliðsins Rhein-Neckar Löwen segir tengsl þjálfarans Noka Serdarusic við meint múlumál þýska handknattleiksliðsins Kiel hafi verið megin ástæða þess að samningi við hann var rift í síðustu viku. Nielsen segist í samtali við vef danska sjónvarpsins vera viss um að Kiel hafi óhreint mjöl í pokahorninu og eitthvað sé til í því að forráðamenn þess hafi borið fé á dómara í leikjum í Evrópukeppninni. 

Nielsen á fyrirtækið Kasi Group sem fyrr í vetur ákvað að leggja talsvert fé í Rhein-Neckar Löwen og hætta um leið við þau áform sín að koma dönsku 3. deildarliði í fremstu röð í Evrópu. Í staðinn tók Nielsen sæti í stjórn Rhein-Neckar Löwen, sem Guðjón Valur Sigurðsson leikur m.a. og Ólafur Stefánsson gengur til liðs við í sumar.

Fyrrgreindur Serdarusic þjálfaði Kiel í 15 ár og varð liðið á þeim tíma það sigursælasta í evrópskum handknattleik. Honum hætti hjá Kiel í sumar eftir að kastast hafði í kekki á milli hans og Uwe Schwenker, framkvæmdastjóra félagsins. Forráðamenn Rhein-Neckar Löwen skrifuðu undir samning við Serdarusic nokkru fyrir síðustu jól um að hann tæki við þjálfun liðsins í sumar. Þeim samningi var rift mjög skyndilega í síðustu viku og því borið við að af heilsufarsástæðum treysti Serdarusic sér ekki í starfið. Nielsen segir nú að meint tengsl Serdarusic við meint mútumál Kiel hafi verið ástæða þess að forráðamenn Rhein-Neckar Löwen slitu samstarfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka