Birkir Ívar Guðmundsson markvörður Hauka var svo sannarlega maður leiksins þegar Íslandsmeistararar Hauka héldu sigurgöngu sinni áfram í N1-deildinni í handknattleik í kvöld með sigri á FH-ingum. Birkir Ívar varði 25 skot í leiknum og sýndi frábær tilþrif á milli stanganna.
,,Ég fann mig bara virkilega vel og ekki skemmir fyrir að hafa svona öfluga vörn fyrir framan sig. Við höfðum töluvert mikla yfirburði í leiknum og held að sigurinn hefði orðið mun stærri ef ekki hefðu komið upp nokkrir undarlegir dómar í seinni hálfleik,“ sagði Birkir Ívar við mbl.is eftir leikinn. Spurður hvort Haukarnir verði stöðvaðir úr þessu sagði Birkir; ,,Ég ætla að vona ekki. Við erum á góðu róli. Við höfum æft mjög vel og erum orðnir mjög samstilltir. Varnarleikurinn hefur verið frábær og sóknarleikurinn agaður og ef við höldum þessu áfram þá hef ég engar áhyggjur,“ sagði Birkir Ívar.