HK vann í kvöld þriggja marka sigur á Víkingi, 29:26 í N1 deild karla í handknattleik í leik sem fram fór í Víkinni. Þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir í deildinni hefur Víkingur nú aðeins 5 stig á botni deildarinnar og getur ekki náð Stjörnunni að stigum sem er í 7. sæti. Er þar með ljóst að Víkingar eru þegar fallnir í 1. deild og munu leika þar á næsta leiktímabili.
Mbl.is var á staðnum og lýsti því sem fyrir augu bar í beinni textalýsingu.
LEIK LOKIÐ. Leiknum lauk með sigri HK, 29:26. Ragnar Hjaltested var markahæstur í liði HK með 11 mörk og næstur honum kom Einar Ingi Hrafnsson með 6 mörk. Hjá Víkingi var Sverrir Hermannsson markahæstur með 10 mörk.
59. Hér er allt að leysast upp í vitleysu. HK ætlaði að taka leikhlé, höfðu hins vegar misst boltann þegar leikhléið var flautað. Allt varð brjálað og mikil reikisstefna við ritaraborðið sem endaði þó með því að HK fékk leikhléið sitt. Víkingar brjálaðir og átti bæði Margrét Theódórsdóttir eftirlitsmaður leiksins og Hafsteinn Ingibergsson annar dómari leiksins í orðaskaki við áhorfendur.
52. Valdimar Fannar Þórsson skoraði sitt fyrsta mark og jók muninn í sex mörk fyrir HK, 20:26. Sjaldan sem jafn lítið fer fyrir Valdimar í leik HK og í kvöld.
50. Bæði lið láta margt fara í taugarnar á sér síðustu mínúturnar og alls ekki boðið upp á neina flugeldasýningu. Staðan er 20:25 eftir að Ragnar Hjaltested skoraði sitt tíunda mark úr leiknum. Talsvert þarf að gerast til að Víkingur takist að ná stigi út úr þessum leik.
45. HK hefur náð öllum tökum á leiknum og hafa nú náð sex marka forystu eftir að Ragnar Hjaltested skoraði fyrir HK úr vítakasti. Hefur Ragnar nú skorað 9 mörk fyrir HK það sem af er leiknum
40. Víkingar hafa aðeins vaknað aftur til lífins og minnkað muninn í tvö mörk, 16:18.
38. Léleg nýting hjá báðum liðum á sóknum sínum hefur einkennt fyrstu mínútur síðari hálfleiks. HK hefur þó betri tök á leiknum og hefur fjögurra marka forystu, 18:14.
32. Víkingurinn Hreiðar Haraldsson skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks og minnkaði muninn í 13:15.
FYRRI HÁLFLEIK LOKIÐ. HK hefur yfir í hálfleik gegn Víkingi, 15:12. Víkingar hófu leikinn betur og höfðu eins til þriggja marka forystu þar til í stöðunni 9:7 þegar þeir hófu að gefa eftir. Það nýttu HK-ingar sér, sem höfðu ekki verið beittir fram að því. Skoraði þá HK fimm mörk í röð og breyttu stöðunni sér í hag og hafa nú yfir í hálfleik.
30. Stórmerkin gerast, því varnartröllið Sigurgeir Árni Ægisson af öllum mönnum skoraði fyrir HK, eftir hraðaupphlaup og jók muninn í 11:15.
29. Munurinn á liðunum er nú tvö mörk, 11:13.
27. HK hefur skorað síðustu fimm mörk leiksins og breytt stöðunni úr 9:7 í 9:12. Við það tók Róbert Sighvatsson þjálfari Víkings leikhlé.
23. HK er nú komið tveimur mörkum yfir, 11:9. Gunnar Steinn Jónsson skoraði fyrst eftir hraðaupphlaup og Ragnar Hjaltested síðan úr vítakasti og jók þar með muninn í tvö mörk.
21. Gunnar Steinn Jónsson skoraði af línunni fyrir HK og jafnaði þar með metin, 9:9.
18. Víkingar eru skrefinu á undan enn sem komið er og hafa nú tveggja marka forystu, 9:7.
14. HK hefur bitið frá sér og Ragnar Hjaltested gert tvö mörk í röð úr hægra horninu og minnkað þar með muninn í 6:5.
12. Davíð Georgsson skoraði sitt þriðja mark í leiknum og kom Víkingum í stöðuna 6:3.
10. Björn Viðar varði skot eftir hraðaupphlaup HK og Þröstur Þráinsson kom Víkingum svo í 5:3 með marki úr hægra horninu. Þá fékk Sverre Jakobsson tveggja mínútna brottvísun við sama tækifæri.
8. Björn Viðar Björnsson markvörður Víkings varði vítakast frá Valdimar Fannari Þórssyni.
7. Davíð Georgsson kemur Víkingi yfir á nýjan leik, 4:3.
6. Ásbjörn Stefánsson jafnaði fyrir HK í 3:3 eftir mark úr hægra horninu.
5. Einar Ingi Hrafnsson jafnaði fyrir HK, 2:2 með marki af línunni en Sveinn Þorgeirsson var fljótur að svara með flottu marki fyrir Víkinga, staðan því 3:2.
3. Sverrir Hermansson kom Víkingi aftur yfir, 2:1 með marki úr vítakasti.
2. Ragnar Hjaltested jafnaði fyrir HK með marki úr gegnumbroti, 1:1.
1. Víkingar byrjuðu með boltann og var það Davíð Georgsson sem skoraði fyrir þá fyrsta mark leiksins af línunni í þeirra fyrstu sókn, 1:0.