Einn leikur fer fram í N1 deild karla í handknattleik í kvöld klukkan 18.00, þar sem Haukar fara norður yfir heiðar og mæta Akureyri. Leikurinn er þýðingarmikill fyrir bæði lið. Haukar geta aukið forystu sína á toppi deildarinnar, en Akureyringar þurfa sigur til þess að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina.
Akureyri er sem stendur í 6. sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum frá FH. Ætli Akureyri sér að komast í úrslitakeppnina, þurfa þeir á sigri að halda í kvöld sem og næstu tveimur leikjum þeirra og treysta því að FH og Fram tapi sínum leikjum á meðan.
Fari hinsvegar illa hjá norðanmönnum í næstu leikjum, gætu þeir átt það á hættu að fara niður fyrir Stjörnuna og þurfa þar með að spila um sæti sitt í deildinni í umspilsleikjum við það lið sem lendir í fjórða sætinu í 1. deildinni.
Sagt verður frá leiknum á mbl.is að honum loknum og ítarlega fjallað um hann í Morgunblaðinu á morgun.