Morten Stig Christensen, einn besti handknattleiksmaður Dana á árum áður og núverandi framkvæmdastjóri danska handknattleikssambandsins, hefur miklar áhyggjur af framtíð íþróttarinnar undir forystu núverandi stjórnar alþjóðasambandsins, IHF, þar sem Hassan Moustafa frá Egyptalandi er í aðalhlutverki sem forseti.
Það er sérstaklega tregða Moustafa og hans manna til að samþykkja reglur alþjóða lyfjanefndarinnar, Wada, sem veldur Christiansen áhyggjum en hótað hefur verið að taka handboltann af dagskrá Ólympíuleikanna ef IHF fer ekki að reglum hennar.
„Afstaða IHF er mér algjörlega óskiljanleg. Sambandið leikur sér að því að stefna framtíð handboltans í hættu. Það er ekki hægt að skýla sér á bakvið einhverja pólitík. Hún skýrist síðar en núna verður IHF að gefa eftir, því það yrði gífurlegt áfall fyrir handboltann ef honum yrði fleygt útaf Ólympíuleikunum," sagði Christiansen við Politiken í dag.
Moustafa forseti leggur traust sitt á að hægt verði að kæra reglur alþjóða lyfjanefndarinnar en hann segir að þær séu óaðgengilegar. „Er hægt að hafa eftirlit með öllum leikmönnum í 24 tíma á hverjum sólarhring, alla 365 daga ársins? Ég hef ekki trú á því," segir Moustafa.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni hefur Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður HSÍ, ákveðið að bjóða sig fram í forsetakjöri IHF gegn Hassan Moustafa.