Frábær sigur í Skopje

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, hafði í mörg horn …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, hafði í mörg horn að líta í leiknum við Makedóníu í kvöld. Brynjar Gauti

Íslenska landsliðið í handknattleik vann þriggja marka sigur á Makedóníu, 29:26, í riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í Skopje í kvöld. Íslenska liðið hafði frumkvæðið í leiknum lengst af og syndu leikmenn mikill baráttuvlja og ákveðni í öllum leik sínum frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Staðan var 13:10 í hálfleik fyrir Ísland. Upp úr miðjum hálfleik tókst heimamönnum að jafna metin og komast yfir en endasprettur leiksins var Íslendinga sem hrósuðu sætum og verðskulduðum sigri í leikslok.

Þar með stendur íslenska landsliðið afar vel að vígi í 3. riðli undankeppninnar. Það hefur fimm stig að loknum  þremur leikju. Norðmenn eru efstir með 7 stig eftir 4 leiki. Makedónía virðist úr leik í bili að minnsta kosti í keppninni um sæti á EM í Austurríki. Tvö efstu lið riðilsins að keppni lokinni í vor tryggja sér farseðilinn á EM. Íslenska landsliðið mætir Eistlandi í riðlakeppninni á Ásvöllum á sunnudaginn kl. 16.

60. Ekkert gekk upp hjá Makedóníumönnum á lokakaflanum. Þeir hafa lagt niður vopnin. Aron Pálmarsson innsiglaði sigur Íslands með tveimur frábærum mörkum á síðustu mínútu leiksins.  Frábær sigur í höfn. Leikskipulag íslenska liðsins gekk afar vel upp, sterk vörn með Ingimund Ingimundarson og Sverre Jakobsson í aðalhlutverki. Þá voru markverðirnir vel með á nótunum. Á heildina litið glæsilegur leikur hjá íslenska landsliðinu sem hélt sig við skipulag og aga frá upphafi til enda.

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 9/4, Aron Pálmarsson 6, Snorri Steinn Guðjónsson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Þórir Ólafsson 3, Róbert Gunnarsson 2, Rúnar Kárason 1, Sigurbergur Sveinsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústafsson  13/2 (þaraf 3/1 aftur til mótherja). Hreiðar Levy Guðmundsson 2.

Utan vallar: 10 mínútur.

57,30. Ásgeir Örn Hallgrímsson hefur skorað tvö mörk í röð og íslenska liðið er komið yfir, 27:25. Makedóníumenn taka leikhlé.

53. Leikurinn er járnum og mikil spenna fyrir lokakaflann. Staðan er jöfn, 24:24. Aron Pálmarsson átti möguleika á að koma íslenska liðinu yfir en það var varið frá honum í opnu færi. Makedóníumenn hefja sókn. 

48. Makedóníumenn eru komnir yfir, 22:21. Síðustu tvær sóknir íslenska liðsins hafa ekki heppnast. Hreiðar Guðmundsson kominn í markið í stað Björgvin Páls.

43. Leikurinn er í járnum. Snorri Steinn var að skora mark af línu og koma Íslandi yfir, 19:18. Makedónar hafa aldrei komist yfir en nokkrum sinnum náð að  jafna metin. 

35. Íslenska liðið heldur uppteknum hætti, vörnin er góð og sóknarleikurinn er nokkuð góður þar sem Aron hefur verið sterkur. Staðan 16:14. Guðjón hefur skorað tvö mörk í síðari hálfleik, bæði úr vítum, og Þórir eitt.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Íslenska liðið er þremur mörkum yfir, 13:10. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 13. markið í þann mund sem fyrri hálfleik lauk. Óhætt er að segja að leikur íslenska liðsins hafi verið afar góður. Varnarleikurinn hefur verið framúrskarandi og þá hefur Björgvin Páll varið vel í markinu, eða 8 skot, þar af eitt vítakast. Góður varnarleikur og markvarsla hefur gefið af sér mikilvæg mörk úr hraðaupphlaupumm.

Mörk Íslands í fyrri hálfleik: Guðjón Valur Sigurðsson 4/1, Aron Pálmarsson 3, Róbert Gunnarsson 2, Snorri Steinn Guðjónsson 2, Sigurbergur Sveinsson 1, Þórir Ólafsson 1.

25. Staðan er 10:8 fyrir Ísland. Íslenska liðið náði þriggja marka forskoti, 9:6 en í framhaldi af brottreksturs á Aron minnkuðu Makedóníumenn muninn.

18 mínútur liðnar af leiknum. Íslenska liðið hefur skorað þrjú mörk í röð er komið yfir, 7:6. Björgvin Páll hefur varið vel í markinu, m.a. vítakast frá Kiril Lazarov.  Vörn íslenska liðsins, 5 plús einn á móti Lazarov, hefur verið góð og þá hefur liðið fengið hraðaupphlaup en ekki tekist að nýta þau vel.

Sjö mínútur eru liðnar af leiknum og er staðan jöfn, 3:3.Þórir Ólafsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Aron Pálmarsson skoruðu þrjú fyrstu mörk íslenska liðsins.

Íþróttahöllinn í Skopje þar sem leikurinn fer fram er þéttsétin, um 8.000 áhorfendur styðja við bakið á liði sínu.

 Dómarar í leiknum í kvöld eru Þjóðverjarnir Bernd og Rainer Methe.

------------------------------------------------------------

Úrslit í fyrri viðureignum þjóðanna í karlaflokki:

12. september 1999 í Reykjavík, Ísland - Makedónía 32:23
19. september 1999 í Skopje, Makedónía - Ísland 32:29

10. júní 2000 í Hafnarfirði, Ísland - Makedónía 38:22
11. júní 2000 í Hafnarfirði, Ísland - Makedónía 26:25

2. júní 2002 í Pribep, Makedónía - Ísland 30:35
9. júní 2002 í Reykjavík, Ísland - Makedónía 33:28

8. júní 2008 í Skoje, Makedónía - Ísland 34:26
15. júní 2008 í Reykjavík, Ísland - Makedónía 30:24

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka