Dómurum úrslitaleiks HM mútað?

Handbolti.
Handbolti. mbl.is

Forsvarsmenn Handknattleikssambands Króatíu sætta sig engan veginn við að hafa tapað fyrir Frökkum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í karlaflokki sem fram fór í Króatíu í lok janúar.

Zoran Gobac, varaformaður króatíska handknattleikssambandsins, telur að dönsku dómararnir sem dæmdu úrslitaleikinn hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Krefst hann þess nú að dómararnir færi rök fyrir nokkrum mikilvægum ákvörðunum sínum í leiknum sem Króatar töpuðu, 24:19.

Gobac telur víst að dómurunum hafi verið borgað undir borðið svo þeir drægju taum Frakka.

Gobac kemur nú fram á völlinn og ber upp á dönsku dómarana, Lars Ejby Pedersen og Per Olesen, að hafa verið óheiðarlega í starfi í úrslitaleiknum.  Ásakanir Goabc koma fram eftir að dönsku dómararnir upplýstu að móthaldarar í Króatíu hafi leitt fram hóp portkvenna í matarveislu sem haldin var fyrir dómara mótsins. Olesen og Pedersen segja að portkonurnar hafi ekki mætt í veisluna fyrir neina tilviljun. Gobac og félagar vísa hinsvegar tilvist portkvennanna á bug. Segja þeir engan fót vera fyrir fullyrðingum Dananna.

„Dómararnir verða að gera grein fyrir frammistöðu sinni og hver fékk þá til þess að dæma eins og þeir gerðu," segir Gobac sem ásamt fleiri forsvarsmönnum Handknattleikssambands Króatíu eru afar óánægðir með  frammistöðu dómarana í leiknum. Það er hins vegar fyrst nú sem þeir bera óánægju sína á torg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert