Þórir Hergeirsson var í dag ráðinn þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik en norska handknattleikssambandið tilkynnti um ráðningu hans á blaðamannafundi rétt í þessu.
Þórir hefur undanfarin átta ár verið aðstoðarþjálfari norska liðsins og tekur við af Marit Breivik sem tilkynnti í ársbyrjun að hún mundi láta af starfi aðalþjálfara eftir að hafa gegnt því í 15 ár með frábærum árangri.
„Ég tek þetta verkefni að mér í auðmýkt en um leið er ég stoltur og glaður yfir því að fá tækifæri til að stýra liði með mikinn metnað. Ég tel mig tilbúinn í þetta starf og háleit markmiðssetning fyrir kvennalandsliðið er mikil hvatning," sagði Þórir á fundinum.