Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í handknattleik, þarf nauðsynlega á sigri að halda í kvöld gegn Fram í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins, en Fram vann fyrri leikinn sem fór fram í Hafnarfirði og getur með sigri í kvöld slegið út deildameistarana.
„Tap í kvöld yrðu auðvitað gríðarleg vonbrigði. Það voru líka vonbrigði að tapa fyrsta leiknum, því við vorum með sex marka forystu á tímabili, en slepptum á þeim takinu og misstum við það leikinn úr höndunum á okkur. Núna erum við komnir upp við vegg og við hreinlega verðum að sigra, það er ekkert annað sem kemur til greina, annars erum við úr leik. Við viljum fá tækifæri til að klára þetta á heimavelli. En þetta er auðvitað sjarminn við úrslitakeppnina, allir geta unnið alla. Við höfum verið mjög stöðugir í deildinni í vetur, en núna lendum við í meiðslum lykilmanna og þurfum að treysta á dagsform og slíkt, en það er vonandi að við hristum af okkur slenið fyrir kvöldið,“ sagði Aron í dag.
Sigri Fram í kvöld mætir það annaðhvort Val eða HK í úrslitum, sem einnig eigast við í kvöld, en leikirnir hefjast báðir klukkan 19.30.