„Ég held að tapið í fyrsta leiknum í undanúrslitaviðureigninni við Fram hafi verið sparkið í rassinn sem við þurftum,“ sagði Einar Örn Jónsson sigurreifur eftir glæsilegan sigur á Fram í kvöld, 30:21.
Haukar eru eftir sigurinn komnir í úrslit Íslandsmóts karla í handknattleik þar sem liðið mætir Val. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki stendur uppi sem Íslandsmeistari og eiga Haukar titil að verja. „Við mættum einbeittir til leiks staðráðnir í því að fara áfram. Með gríðarlega sterkum varnarleik og markvörslu tókst okkur að klára dæmið gegn Fram og komast í úrslitin. Við höfum mikla breidd og höfum verið að keyra á henni, og það hefur skilað sér, enda úrslitin næst á dagskrá hjá okkur núna,“ sagði Einar Örn við Mbl, en hann skoraði 5 mörk fyrir Hauka í leiknum í kvöld.
„Núna fáum við sterkt lið Vals í úrslitum, mitt gamla félag. Fáum hér skemmtilegan KFUM slag þar sem andi séra Friðriks Friðrikssonar mun svífa yfir vötnum. Þetta verður hörku rimma enda tvö virkilega sterk lið á ferð með marga góða leikmenn. Heimavöllur Vals hefur verið mikið vígi í vetur og sömuleiðis höfum við gott sigurhlutfall á okkar heimavelli, Ásvöllum, ef undan eru skildir tveir leikir við Fram í vetur. En vonandi mun okkur takast að spila nógu vel til að verða Íslandsmeistarar og verja þann titil sem við er núna í okkar vörslu.“
Einar kvaðst ánægður með mótafyrirkomulagið í vetur og fagnar átta liða úrvalsdeild og fjögurra liða úrslitakeppni. „Þetta fyrirkomulag er algjörlega málið. Fyrir vikið höfum við líka fengið sterka 1. deild eftir að fækkað var niður í 8 lið í úrvalsdeildinni. Þessi fjögurra liða úrslitakeppni er svo rúsína í pylsuendanum og er að heppnast mjög vel. Oddaleikir í báðum viðureignum í undanúrslitum og góð mæting meðal áhorfenda,“ sagði Haukamaðurinn Einar Örn Jónsson.