Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari bikarmeistara Vals í handknattleik karla, segir leikinn gegn Haukum í kvöld hafa verið erfiðan enda tapaði Valur 29:24. Meistarar Hauka eru því með 1:0 forystu í rimmunni en Óskar er bjartsýnn á að Valsmenn standi uppi sem sigurvegarar áður en yfir líkur. Vinna þarf þrjá leiki til þess að hampa Íslandsbikarnum.
„Sóknarleikurinn gekk ekki upp og þetta var erfitt sóknarlega. Við byrjuðum vel og mér fannst þetta vera í lagi þegar við náðum að stilla upp í vörnina. Við vorum hins vegar í vandræðum með hlaupin til baka og þá skoruðu þeir einföld mörk. Eins þurfum við að skora fleiri mörk þegar við erum leikmanni fleiri. Við nýttum það hræðilega illa og það fór eiginlega með leikinn hjá okkur. Þrátt fyrir það vorum við að narta í þá en þetta var erfitt. Ég hélt að við myndum taka þetta en þeir tóku fráköstin og skoruðu einföld mörk. Á heildina litið þá þurfum við að vinna einn leik hér í Hafnarfirði og við munum gera það,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is í kvöld.
Ítarlega er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.