Afturelding burstaði Stjörnuna

Daníel Jónsson hjá Aftureldingu og Björgvin Hólmgeirsson hjá Stjörnunni eigast …
Daníel Jónsson hjá Aftureldingu og Björgvin Hólmgeirsson hjá Stjörnunni eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Afturelding vann stórsigur á Stjörnunni, 32:22, í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik en hann fór fram að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Þar með þarf oddaleik í Garðabæ á mánudagskvöldið til að skera úr um hvort liðið leikur í úrvalsdeildinni næsta vetur.

Afturelding komst í 5:2 í byrjun en Stjarnan svaraði með fjórum mörkum í röð, 5:6. Þá gerðu Mosfellingar næstu fimm mörkin, 10:6, og juku forskotið í fimm mörk áður en fyrri hálfleikur var úti, 14:9.

Í síðari hálfleik gerði Afturelding algjörlega út um leikinn og uppskar að lokum tíu marka sigur.

Gífurleg stemmning var í gamla íþróttahúsinu í Mosfellsbæ þar sem leikurinn fór fram en hátt í 1.000 manns troðfylltu það. Margir börðu potta og pönnur svo að minnti á búsáhaldabyltinguna margfrægu. Ljóst er að hávaðinn og dyggur stuðningur Mosfellinga við sitt lið hafði sitt að segja í því að slá Stjörnumenn útaf laginu.

Hilmar Stefánsson skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu, Jóhann Jóhannsson 6 og Bjarni Aron Þórðarson 5. Smári Guðfinnsson átti stórleik í marki liðsins og varði 15 skot. Hjá Stjörnunni var Björgvin Hólmgeirsson með 10 mörk og Daníel Einarsson með 6.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert